Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Gísli lagði upp mark í sigri – Jafntefli hjá Bjarna Mark

Gísli Eyjólfsson lagði upp mark í útisigri Mjällby í Svíþjóð í dag.

Mynd/blt.se

Gísli Eyjólfsson og félagar í Mjällby gerðu sér góða leið til Södertälje í dag þegar þeir lögðu lið Syrianska á útivelli, 1-2, í sænsku B-deildinni. Gísli kom inn á sem varamaður í byrjun seinni hálfleiks en Óttar Magnús Karlsson sat allan tímann á varamannabekknum hjá Mjällby.

Mjällby skoraði fyrsta mark leiksins eftir korter en Syrianska var ekki lengi að svara fyrir sig og jafnaði metin aðeins fimm mínútum síðar.

Þegar um tuttugu mínútur lifðu leiks skoraði Joel Nilsson fyrir Mjällby eftir góðan undirbúning frá Gísla Eyjólfssyni. Ekki komu fleiri mörk og Mjällby fór með 1-2  útisigur af hólmi.

Mjällby hefur farið þokkalega vel af stað í sænsku B-deildinni en eftir sjö umferðir er liðið í 3. sæti með 12 stig.

Markalaust jafntefli hjá Bjarna Mark 

Bjarni Mark Antonsson var í byrjunarliði IK Brage í sænsku B-deildinni í dag þegar lið hans gerði markalaust jafntefli við Norrby. Bjarni var tekinn af velli á 76. mínútu.

Bjarni þurfti í síðasta leik að fara af velli vegna höfuðhöggs en hann hefur náð að jafna sig í tæka tíð fyrir leikinn í dag.

Bjarni hefur leikið alla sjö leikina á leiktíðinni fyrir Brage, sem er í 5. sæti sænsku B-deildarinnar með 11 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun