Fylgstu með okkur:

Fréttir

Galatasaray áhugasamt um Alfreð

Samkvæmt fréttum í Tyrklandi er tyrkneska meistaraliðið Galatasaray áhugasamt um að festa kaup á Alfreð Finnbogasyni.

ÍV/Getty

Tyrkneska meistaraliðið Galatasaray hefur áhuga á að festa kaup á Alfreð Finnbogasyni, leikmanni Augsburg í Þýskalandi, í sumar samkvæmt fréttum í Tyrklandi. Fréttamiðlarnir Aslan Arenasi, Star og Sporx greina allir frá þessu.

Galatasaray virðist vera í leit að sóknarmanni og tyrkneskir fjölmiðlar segja að félagið sé tilbúið að bjóða allt að 6 milljónir evra fyrir þjónustu Alfreðs.

Alfreð, sem á eitt ár eftir af samningi sínum hjá Augsburg, hefur sagt á síðustu dögum í viðtölum að hann reikni með því að framlengja samning sinn í Þýskalandi.

„Ég á eitt ár eftir af samningi mínum við Augsburg og ég býst við því að spila með félaginu á næstu leiktíð,“ sagði Alfreð í viðtali í Þýskalandi.

Alfreð var óheppinn með meiðsli á nýlokinni leiktíð í þýsku Bundesligunni og lék aðeins 18 leiki en hann stóð sína plikt í þeim leikjum og skoraði 10 mörk og þar af tvær þrennur. Hann fór í aðgerð á hásin í síðasta mánuði og býst við því að vera fjarri góðu gamni í fyrstu leikjum Augsburg á næstu leiktíð.

„Ég myndi segja að mitt undirbúningstímabil hefst nokkrum vikum seinna en hjá hinum í Augsburg og þá kem ég kannski til baka þegar þrjár eða fjórar vikur eru liðnar af næstu leiktíð. Það var eitthvað sem ég vissi þegar ég fór í aðgerðina,“ sagði Alfreð í samtali við kvöldfréttir Stöðvar 2 nú á dögunum.

Alfreð gefur það til kynna að hann hafi áhuga á að framlengja samning sinn í Þýskalandi.

„Þeir hafa tilkynnt mér það að þeir vilja framlengja samninginn. Það verður að koma í ljós á næstu vikum hvort við náum samkomulagi. Annars er einn fókus núna og það er að ná sér heilum,“ sagði Alfreð.

Alfreð fór í ítarlegt viðtal í hlaðvarpsþættinum Dr. Football hjá Hjörvari Hafliðasyni og þar ræddi hann einnig samningamál sín hjá Augsburg.

„Þeir vilja framlengja samninginn minn og buðu mér samning í janúar sem ég setti til hliðar eða neitaði á þeim tíma, en ótrúlegt en satt þá er ég rólegur yfir þessu, á meðan ég er meiddur. Mig langar bara ná mér góðum og mun hitta þá og setjast niður með þeim þegar ég kem aftur út,“ sagði Alfreð við Hjörvar.

Alfreð kom til Augsburg frá Real Sociedad árið 2016 á 4 milljónir evra en hann á að baki 71 leik, 33 mörk og 10 stoðsendingar fyrir Augsburg.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir