Fylgstu með okkur:

Fréttir

Gagn­rýnd­ur og hef­ur verið mikið í umræðunni – Svaraði fyrir sig á vellinum

Kolbeinn svaraði held­ur bet­ur fyr­ir sig með markinu í dag, eftir allt sem á undan er gengið.

Mynd/svt.se

Framherjinn Kolbeinn Sigþórsson, leikmaður AIK í Svíþjóð, hef­ur verið gagn­rýnd­ur fyr­ir frammistöðu sína á tímabilinu og var í mikið í umræðunni í gær vegna frétt­ar í Fréttablaðinu þess efn­is að hann hafi verið handtekinn fyr­ir að hafa verið með ólæti á skemmtistað í Svíþjóð.

Fótbolti.net greindi frá því fyrr í dag að AIK hafi skoðað atvikið ítarlega þar sem knattspyrnustjóri félagsins komst að þeirri niður­stöðu að refsa ekki Kolbeini, sem ekki hafði neitt til saka unnið, og var því ekki talinn sökudólgur í þeim látum sem áttu sér stað.

Fólk lét ýmislegt flakka í athugasemdakerfum í gær um Kolbein, sem átti að hafa gerst sekur um að veita mótþróa við handtöku og verið með ólæti. Hér að neðan má sjá nokkur orðrétt ummæli sem voru birt í athugasemdakerfum.

„Hann skal bara taka ábyrgð sjálfur á sínum málum, hætta þessari meðvirkni“

„Ekki furða að hann hafi verið svona meiddur lengi, alltaf á pöbbum í slagsmálum“

„Menn verða að axla ábyrgð á gjörðum sínum. Enga meðvirkni. Stundum vilja þekktir fá aðra málsmeðferð, allir eru jafnir þegar þeir eru fullir og láta illa.“

„Þetta er svo mikið hræ. Ótrúlegt að hann hafi náð þessum áfanga með landsliðinu miðað við metnaðar- og agaleysið.“

Gagnrýndur í Dr. Football á dögunum

Hjörvar Hafliðason, þáttastjórnandi hlaðvarpsþáttarins Dr. Football, sagði á dögunum í þætti sínum frá samtali sínu við ónafngreindan mann frá Svíþjóð þar sem rætt var um frammistöðu Kolbeins hjá AIK. Ekki var gefið upp hver sá sænski er en hann segir Kolbein ein mestu vonbrigðin í sænsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

Kolbeinn fékk talsverða gagnrýni í þættinum og þá helst frá Hjörvari en sér­fræðing­ar þáttarins voru þeir Kristján Óli Sigurðsson og Mikael Nikulásson, sem voru að hluta til sammála Hjörvari.

„Ef ég væri hafsent þarna þá væri ég örugglega búinn að skora í þremur leikjum. Kolbeinn er aðeins búinn að skora í einum leik, tvö mörk í einum leik. Finnst ykkur þetta ekki athyglisvert?“ spurði Hjörvar, sem sagði stuttu síðar að þetta væri ömurleg tölfræði.

„Það er ekki gott. Það segir sig sjálft og ég tel Kolbein vera miklu betri leikmann en að skora aðeins tvö mörk. Ég vil sjá hann skora meira, því hann er frábær leikmaður. Hann veit það best sjálfur að tvö mörk er ekki nógu mikið fyrir framherja á hans mælikvarða,“ sagði Mikael.

Heyra má umræðuna alla um Kolbein hér að neðan en hún kemur eftir um 19 mínútur.

Skoraði í dag

Kolbeinn skoraði í dag fyrra mark AIK þegar liðið lagði Sundsvall, 2-1, í lokaum­ferð sænsku úrvalsdeild­ar­inn­ar. AIK endar tímabilið í 4. sæti deildarinnar með 62 stig.

Markið skoraði Kolbeinn með fínu skoti úr teignum eftir laglegan undirbúning frá Henok Goitom. Ef svo má að orði kom­ast, þá svaraði Kolbeinn held­ur bet­ur fyr­ir sig með markinu í dag, eftir allt sem á undan er gengið.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir