Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Fyrsti sigur Jóns Dags hjá AGF

Fyrsti sigur Jóns Dags Þorsteinssonar hjá AGF síðan hann skrifaði undir í sumar

AGF frá Árósum tók á móti Horsens í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði AGF en var skipt af velli á 80. mínútu. AGF sigraði leikinn með tveimur mörkum gegn engu. Þetta er fyrsti sigur AGF á tímabilinu en liðið er nú komið með 5 stig eftir sex umferðir.

Jón Dagur skrifaði undir þriggja ára samning við félagið í sumar en hann spilaði hjá Vendsyssel FF í dönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð að láni frá enska félaginu Fulham.

Oliver Sigurjónsson sat allan tímann á varamannabekk Bodö/Glimt sem gerði 1-1 jafntefli gegn Sarpsborg í norsku úrvalsdeildinni. Bodö/Glimt er í öðru sæti deildarinnar með 39 stig, jafnmörg og topplið Molde en með lakari markatölu.

Daníel Hafsteinsson var ekki í leikmannahópi Helsingborg sem tók á móti Gautaborg í sænsku úrvalsdeildinni. Gautaborg sigraði með tveimur mörkum gegn engu. Helsingborg er í 12. sæti með 18 stig.

Bjarni Mark Antonsson spilaði allan leikinn fyrir Brage í markalausu jafntefli gegn Varberg BoIS í sænsku B-deildinni. Brage datt niður í fjórða sætið með þessum úrslitum en liðið er með 37 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Mjällby.

Hörður Björgvin Magnússon lék allan leikinn fyrir CSKA Moskvu í grannaslag gegn Spartak Moskvu í rússnesku úrvalsdeildinni. Arnór Sigurðsson var ekki í leikmannahópi CSKA vegna meiðsla. Spartak fór með sigur af hólmi, 2-1. CSKA situr í 6. sæti með 10 stig úr sex leikjum.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun