Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Fyrsti byrj­un­arliðsleik­ur Atla endaði með sigri

Atli lék í dag sinn fyrsta byrj­un­arliðsleik fyrir Fredrikstad.

Mynd/f-b.no

Atli Barkarson var í byrjunarliði Fredrikstad sem vann 2-1 sigur á útivelli gegn Hødd í norsku 2. deildinni í dag.

Atli lék fram að 72. mínútu, er hann var tekinn af velli, en þetta var í fyrsta skipti á leiktíðinni sem hann er í byrj­un­arliðinu hjá Fredrikstad.

Henrik Kjelsrud Johansen skoraði bæði mörkin fyrir Fredrikstad, fyrst á 20. mínútu og svo á 86. mínútu en þar milli skoraði Eirik Saunes fyrir Hødd á 32. mínútu.

Atli, sem er 18 ára gamall, er efnilegur varnarmaður og gekk í raðir Fredrikstad frá enska fé­lag­inu Norwich í síðasta mánuði. Hann kom inn af bekknum í síðasta leik Fredrikstad og spilaði þá síðasta klukkutímann.

Fredrikstad er í baráttu um að komast upp í norsku 1. deildina og er liðið í 3. sæti með 46 stig. Stjordals Blink er í toppsætinu með 51 stig og Kvik Halden, sem Dagur Dan Þórhallsson leikur með, er í öðru sæti með 49 stig eftir 22 leiki.

Fyrsta sætið í norsku 2. deildinni fer beint upp um deild á meðan liðið í öðru sæti fer í umspil um síðasta lausa sætið.

Lillestrøm, Vålerenga og Álasund unnu ekki sína leiki

Arnór Smárason lék með Lillestrøm sem tapaði 2-1 fyrir Molde í norsku úrvalsdeildinni. Arnór byrjaði leikinn á bekknum en var skipt inná á 44. mínútu, rétt fyrir leikhléið.

Lillestrøm komst yfir á 38. mínútu og Molde tókst að jafna metin á 64. mínútu og allt virtist stefna í jafntefli en allt kom fyrir ekki. Tobias Salquist, leikmaður Lillestrøm, varð fyrir því óláni að skora í eigið mark og lokatölur urðu 2-1, Molde í vil.

Matthías Vilhjálmsson lék síðasta hálftímann fyrir Vålerenga sem gerði 1-1 jafntefli við Ranheim.

Vålerenga skoraði á 62. mínútu þegar Matthías var búinn að vera á vellinum í aðeins tvær mínútur en Ranheim jafnaði síðan metin á 86. mínútu.

Lillestrøm er í 8. sæti deildarinnar með 29 stig eftir 23 leiki á meðan Vålerenga er í 10. sæti með 28 stig.

Þá tókst Íslendingaliðinu Álasund ekki sigra Ullensaker/Kisa í norsku 1. deildinni.

Daníel Leó Grétarsson, Davíð Kristján Ólafsson og Aron Elís Þrándarson léku allan leikinn fyrir Álasund sem var komið í 2-0 forystu á 63. mínútu. Ullensaker/Kisa tókst að vinna sig inn í leikinn og skoraði tvö mörk á lokakafla leiksins og leikurinn endaði með 2-2 jafntefli.

Álasund er sem fyrr á toppi deildarinnar og hefur nú 64 stig, ellefu stigum meira en Sandefjord sem er í öðru sæti.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun