Fyrsta tækifæri Tómasar í byrjunarliðinu

Tómas Bent var í fyrsta sinn í byrjunarliði Hearts í skosku úrvalsdeildinni.
Ljósmynd/Hearts

Tómas Bent Magnússon fékk tækifæri í byrjunarliði Hearts í fyrsta sinn á leiktíðinni í skosku úrvalsdeildinni þegar liðið gerði 1:1-jafntefli við Dundee United í dag.

Tómas, sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir Hearts í síðustu umferð, lék í 65 mínútur í leiknum. Hearts er áfram á toppi deildarinnar með 30 stig, sjö stigum meira en Celtic.

Kjartan Már Kjartansson var á varamannabekknum hjá Aberdeen í 1:1-jafntefli liðsins við Motherwell. Aberdeen er í 8. sæti af 12 liðum og Kjartan hefur enn ekki komið við sögu á leiktíðinni.

Í Hollandi kom Brynjólfur Darri Willumsson inn af bekknum á 58. mínútu hjá Groningen sem tapaði 2:0 fyrir NEC Nijmegen. Groningen er í 6. sæti með 19 stig eftir tólf umferðir í hollensku úrvalsdeildinni.

Í Noregi gerði Brann, undir stjórn Freys Alexanderssonar, 1:1-jafntefli við KFUM. Eggert Aron Guðmundsson lék í 88 mínútur en Sævar Atli Magnússon er frá út tímabilið vegna meiðsla. Brann er í 3. sæti með 53 stig, tveimur stigum á undan Tromsø sem er í fjórða sæti þegar tvær umferðir eru eftir.

Stefán Ingi Sigurðarson kom inn á sem varamaður á 69. mínútu hjá Sandefjord sem vann 1:0-sigur á Tromsø. Sandefjord er í 6. sæti með 42 stig.

Fyrri frétt

Elías lokaði markinu og fór á toppinn – Kristall skoraði í sigri

Næsta frétt

Sandra María lagði upp sigurmark Köln