Fylgstu með okkur:

Fréttir

Fulham endurnýjaði samning Jóns Dags

Enska liðið Fulham hefur nýtt sér ákvæði í samningi Jóns Dags og framlengt samning hans við félagið um eitt ár.

Jón Dagur í leik með Fulham. ÍV/Getty

Enska liðið Fulham hefur nýtt sér ákvæði í samningi Jóns Dags Þorsteinssonar og framlengt samning hans við félagið um eitt ár. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins í dag og þá greinir mbl.is einnig frá þessu.

Samningur Jóns Dags hjá Fulham hefði runnið út í sumar en hann hefur á leiktíðinni leikið með danska úrvalsdeildarfélaginu Vendsyssel á lánssamningi þar sem hann hefur skorað fjögur mörk og lagt upp önnur fimm í 30 leikjum.

Leiktíðinni er ekki lokið hjá Vendsyssel en liðið spilar á sunnudag við Horens í seinni leik liðanna í fallumspili dönsku úrvalsdeildarinnar. Vendsyssel tapaði fyrri leiknum 0-1 og fari svo að liðið tapi einvíginu fær liðið annan möguleika á að halda sæti sínu í deildinni með því að leika við liðið sem endar í þriðja efsta sæti í dönsku B-deildinni.

Áður en Jón Dagur fór til Danmerkur stóð hann sig vel með bæði unglinga- og varaliði Fulham. Þar lék hann í rúm þrjú ár.

Jón Dagur á að baki 3 A-landsleiki fyrir Ísland og hefur gert eitt mark sem var gegn Svíþjóð í vináttulandsleik í janúar.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir