Fylgstu með okkur:

Fréttir

Framtíð Jóns Daða í húfi hjá Reading – Fer ekki með liðinu í æfingaferð

Jón Daði verður skilinn eftir þegar lið hans Reading fer í æfingaferð til Spánar í næstu viku, ef marka má fréttir frá staðarmiðli á Englandi.

Mynd/Reading

Framtíð Jóns Daða Böðvarssonar er í húfi hjá enska liðinu Reading en frá þessu greinir Jonathan Low, blaðamaður staðarblaðsins Get Reading á Englandi.

José Manuel Gomes, knattspyrnustjóri Reading, er sagður ætla sér að hreinsa til í herbúðum félagsins í sumar en undirbúningstímabilið hjá félaginu hófst í morgun þar sem leikmenn liðsins eru byrjaðir að undirbúa sig fyrir átökin í ensku B-deildinni sem fer aftur af stað eftir rúman mánuð.

Reading heldur í æfingaferð til Spánar næsta sunnudag og sjö leikmönnum félagsins hefur verið tjáð að mæta ekki í þá ferð, heldur að mæta frekar til æfinga á æfingasvæði félagsins næsta mánudag. Jón Daði er einn þeirra sjö leikmanna sem félagið telur ekki vera lengur þörf á og hann fer því ekki í æfingaferðina, ef marka má þessar fréttir hjá Get Reading.

Vangaveltur hafa verið hjá aðdáendum Reading hvort Jón Daði hafi fengið lengra sumarfrí vegna landsleikjanna með íslenska landsliðinu við Albaníu og Tyrkland fyrr í mánuðinum. Jón Daði var allan tímann á varamannabekknum í leiknum við Albaníu en lék fyrstu 64. mínúturnar gegn Tyrklandi.

Jón Daði, sem er 27 ára, lék 20 leiki fyrir Reading í ensku B-deildinni á síðustu leiktíð og skoraði í þeim 6 mörk.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir