Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Frábært gengi Álasund heldur áfram

Íslendingaliðið Álasund er á toppi norsku 1. deildarinnar eftir sigur í dag.

Mynd/Stavanger Aftenblad

Íslendingaliðið Álasund vann sinn annan sigur í röð og sinn níunda sigur á leiktíðinni í norsku 1. deildinni í dag þegar liðið lék gegn Ham­Kam og fór með 2-1 sigur af hólmi. Álasund er um þessar mundir besta lið deildarinnar.

Þrír Íslendingar spiluðu fyrir Álasund í dag. Daníel Leó Grétarsson var í vörn liðsins, Aron Elís Þrándarson á miðsvæðinu og þá var Hólmbert Aron Friðjónsson í framlínunni. Daníel Leó og Aron Elís léku allan leikinn á meðan Hólmbert Aron var tekinn af velli á 67. mínútu. Davíð Kristján Ólafs­son vermdi varamannabekkinn allan tímann hjá liðinu.

Niklas Fernando Castro kom gestunum í Álasundi í forystu á 11. mínútu þar sem hann skoraði glæsimark af 25 metra færi. Heimamenn í HamKam áttu góð færi í fyrri hálfleiknum en þeim tókst ekki koma boltanum í markið þar til um 25 mínútur voru eftir af leiknum. Leikurinn var jafn í aðeins nokkrar mínútur, því Pape Habib Gueye skoraði skallamark á 69. mínútu fyrir Álasund sem tryggði stigin þrjú.

Með sigrinum styrkti Álasund stöðu sína á toppi norsku 1. deildarinnar. Liðið er komið með 29 stig eftir ellefu umferðir og er sem stendur með 5 stiga forskot á Sandefjord, í 2. sætinu.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun