Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Frábær stungusending Jóns Dags skipti sköp­um

Jón Dagur var arki­tekt­inn að fyrra marki AGF í sigri liðsins í kvöld.

ÍV/Getty

Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði AGF frá Arósum þegar liðið vann góðan 2-1 útisigur á OB frá Óðinsvé­um í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Á 28. mínútu leiksins varð Marco Lund, varnarmaður OB, fyrir því óhappi að skora í eigið mark. Jón Dagur átti þátt í markinu er hann gaf góða stungusendingu á samherja sinn Mustapha Bundu sem náði skoti á markið og setti boltann í markið. Lund reyndi að bjarga á marklínunni en hitti boltann afar illa og markið var skráð sem sjálfsmark. Jón Dagur var því arkitektinn að markinu en hann lék fyrstu 56 mínúturnar í leiknum.

Um miðbik síðari hálfleiks fékk OB-liðið aukaspyrnu og upp úr henni skoraði Moses Opondo af stuttu færi úr teignum, 1-1.

Gestirnir í AGF voru þó ekki hættir, því Mustafa Amini gerði sér lítið fyrir og skoraði laglegt mark með skoti fyrir utan teig á 80. mínútu. Ekki urðu mörkin fleiri og leikurinn endaði með 2-1 útisigri AGF.

Úrslitin þýða að AGF fer með sigrinum upp í 3. sæti deildarinnar og upp í 17 stig eftir 10 leiki.

Í sænsku B-deildinni í kvöld lék Bjarni Mark Antonsson allan leikinn fyrir Brage sem tapaði 3-2 fyrir Örgryte.

Brage er að gera atlögu að sæti í efstu deild í Svíþjóð á næstu leiktíð en liðið situr í þriðja sæti deildarinnar með 46 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Jönköping S. þegar sjö umferðum er ólokið.

Þá spilaði Guðlaugur Victor Pálsson í 68. mínútur með liði sínu Darmstadt sem tapaði 1-0 fyrir FC Heidenheim í þýsku B-deildinni í kvöld.

Darmstadt hefur nú ekki fagnað sigri í deildinni í fimm leikjum í röð en liðið er 15. sætinu með 6 stig eftir 7 leiki.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið