Fór á bekkinn vegna agabrots hjá Midtjylland

Elías Rafn var settur á varamannabekkinn hjá Midtjylland eftir að hafa misst af liðsfundi.
Ljósmynd/Midtjylland

Elías Rafn Ólafsson var settur á varamannabekkinn hjá Midtjylland í leik liðsins gegn FC Kaupmannahöfn í gær eftir að hafa mætt of seint á liðsfund. Samkvæmt agareglum liðsins missir leikmaður sem mætir of seint sjálfkrafa sæti sitt í byrjunarliðinu. Fótbolti.net vakti fyrst athygli á málinu.

Mike Tullberg, þjálfari Midtjylland, sagði í samtali við danska miðilinn Bold að um einfalt agabrot væri að ræða en að reglurnar væru skýrar. „Elías hefur staðið sig mjög vel og er góður drengur, en hann missti af fundi á hótelinu og þá spila leikmenn ekki. Þetta vita leikmenn og á mánudaginn verður þetta gleymt,“ sagði Tullberg.

Jonas Lössl tók stöðu Elíasar í markinu og lék vel í 1:1-jafntefli gegn ríkjandi meisturunum í Kaupmannahöfn í dönsku úrvalsdeildinni. Lössl sagði eftir leikinn að hópurinn stæði saman og að engin ólga væri innan liðsins vegna málsins.

Elías hefur verið aðalmarkvörður Midtjylland á tímabilinu og einnig markvörður íslenska landsliðsins, sem mætir Úkraínu á föstudag og Frakklandi á mánudag eftir viku. Tullberg sagði að málið væri lokið og að Elías yrði aftur gjaldgengur í næsta leik.

Fyrri frétt

Panathinaikos ósigrað með Sverri í vörninni

Næsta frétt

Sandra skoraði í leik sem var frestað – Myndband