Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Fjórði sig­ur Midtjylland í röð – Loks sigur hjá Vålerenga 

Mikael og félagar í Midtjylland náðu í dag fjögurra stiga forystu í dönsku úrvalsdeildinni.

ÍV/Getty

Mikael Anderson og liðsfélagar hans í danska liðinu Midtjylland náðu í dag fjögurra stiga forystu í dönsku úrvalsdeildinni eftir 1-0 sigur á útivelli gegn liði Álaborgar fyrr í dag.

Mikael lék allan leikinn á vinstri kantinum hjá Midtjylland. Eina mark leiksins leit dagsins ljós á 11. mínútu og það gerði Ogochukwu Onyeka með skoti úr teignum í kjölfar hornspyrnu.

Midtjylland var sterkari aðilinn frá upphafi leiksins til enda en liðinu tókst ekki að tvöfalda forystuna. Það kom þó ekki að sök, því heimamönnum í Álaborg tókst ekki að kreista fram jöfn­un­ar­mark.

Lokatölur urðu því 1-0 fyrir Midtjylland og var þetta fjórði sigur liðsins í röð í deildinni. Liðið styrkti þar með stöðu sína á toppn­um og er nú með 38 stig, fjórum stigum meira en FC Kaupmannahöfn, sem lagði í dag SønderjyskE, 3-0.

Eggert Gunnþór Jónsson lék allan leikinn fyrir SønderjyskE en Ísak Óli Ólafsson var ónotaður varamaður hjá liðinu. SønderjyskE situr í 10. sæti með 18 stig.

Loks sigur hjá Vålerenga 

Matthías Vilhjálmsson og samherjar í hans í Vålerenga höfðu betur gegn Brann í norsku úrvalsdeildinni í kvöld, 1-0.

Herolind Shala gerði eina mark leiks­ins og er þetta fyrsti sig­ur Vålerenga í mjög lang­an tíma.

Vålerenga hafði fyrir leikinn í kvöld spilað tólf deildarleiki í röð án þess að sigra en liðið náði að reka af sér slyðruorðið með sigrinum og er í 9. sæti deildarinnar með 33 stig þegar þrjár umferðir eru eftir.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun