Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Fimmti sig­ur AIK í röð

Gott gengi Kolbeins og fé­laga held­ur áfram í sænsku úrvalsdeildinni.

Mynd/Dagens Nyheter

Kolbeinn Sigþórsson og samherjar í AIK eru einu stigi á eftir toppliði Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni eftir öruggan útisigur á Eskilstuna, 4-2, í dag.

AIK lenti undir snemma leiks en jafnaði metin eftir rúmlega hálftíma leik og staðan í leikhléi var 1-1.

Í seinni hálfleik spýtti AIK síðan enn frek­ar í lófana og bætti við þremur mörkum, áður en Eskilstuna náði að klóra í bakkann með sárabótamarki rétt fyrir leikslok. Lokatölur urðu 4-2, AIK í vil. Kolbeinn var í byrjunarliði AIK í leiknum og lék fyrstu 61 mínútuna.

Þetta var fimmti sigur AIK í röð í sænsku úrvalsdeildinni og liðið er nú í öðru sæti deildarinnar með 40 stig, aðeins einu stigi á eftir toppliði Djurgården.

Arnór Ingvi Traustason var ekki í leikmannahópi Malmö sem gerði 1-1 jafntefli við Häcken í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Malmö er í þriðja sæti með 38 stig, tveimur stigum á eftir AIK og þremur á eftir Djurgården.

Arnór Ingvi hefur ekki leikið með Malmö síðan hann meidd­ist illa á fæti í leik með liði sínu gegn Djurgården í síðasta mánuði þegar hann varð fyrir mjög ljótri tæklingu, en það styttist óðum í endurkomu hans, ef marka má sænska fjölmiðla síðustu daga.

Bjarni Mark Antonsson var í byrjunarliði IK Brage sem vann flottan 5-1 heimasigur á Östers í sænsku B-deildinni í dag.

Bjarni lék allan tímann á miðjunni fyrir Brage í leiknum og lagði upp fyrsta mark liðsins. Brage er í öðru sæti deildarinnar með 36 stig, aðeins einu stigi á eftir Varbergs BoIS sem er á toppi deildarinnar.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun