Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Fimm lið jöfn á toppi deildarinnar í Rússlandi

Íslendingaliðið Rostov og fjögur önnur lið eru jöfn að stigum í rússnesku úrvalsdeildinni.

Mynd/ВКонтакте

Fimm lið eru jöfn að stigum í fyrsta til fimm sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar þegar sjö umferðir hafa verið leiknar í deildinni.

Íslendingaliðið Rostov, sem er í þriðja sæti deildarinnar, spilaði í gær við Rubin Kazan og vann 2-1 sigur. Ragnar Sigurðsson lék allan tímann í vörninni hjá Rostov í leiknum en Björn Bergmann Sigurðarson var ekki í leikmannahópi liðsins.

Viðar Örn Kjartansson leikur sem lánsmaður með Rubin Kazan frá Rostov og mátti því ekki spila leikinn í gær.

Toppbaráttan í deildinni er því æsispennandi eftir sjö umferðir og í sætum eitt til fimm eru liðin með 14 stig – í þessari röð – Krasnodar, Spartak Moskva, Rostov, Lokomotiv Moskva og Zenit frá Pétursborg.

Hörður Björgvin Magnússon spilaði allan tímann í vörn CSKA Moskvu sem bar sigurorð af Akhmat, 3-0, í gær. Arnór Sigurðsson var ekki með CSKA vegna meiðsla en það styttist í endurkomu hjá kappanum.

CSKA situr í 6. sæti deildarinnar með 13 stig og er því með einu stigi minna en toppliðin fimm.

Í Hvíta-Rússlandi var Willum Þór Willumsson í byrjunarliði BATE Borisov þegar liðið vann 4-0 stórsigur á Slavia Mozyr í efstu deildinni þar í landi.

Í frétt á Fótbolti.net segir að Willum, sem lék allan leikinn, hafi komist nálægt því að skora í leiknum en hann átti bæði skot í stöng og slá.

BATE er í örðu sætinu með 43 stig og tveimur stigum frá toppliði Dinamo Brest en Willum og félagar í BATE eiga aftur á móti leik til góða.

Þá var Adam Örn Arnarson ekki sjáanlegur í leikmannahópi Gornik Zabrze sem vann 3-0 sigur í pólsku úrvalsdeildinni í gær. Gornik hefur 10 stig í 7. sæti eftir sex leiki.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun