Fylgstu með okkur:

Fréttir

Félög hafa áhuga á Kolbeini

Franskir miðlar segja að félög hafi áhuga á þjónustu Kolbeins.

Franska félagið Nantes og Kolbeinn Sigþórsson komust síðasta föstudag að samkomulagi um riftun á samningi hans við félagið. Þar með lauk þriggja og hálfs árs dvöl hans hjá félaginu.

Kolbeinn, sem verður 29 ára í næstu viku, var keyptur til Nantes sumarið 2015 frá Ajax fyrir rúmar 3,5 milljónir evra.

Kolbeinn lék 29 leiki á sínu fyrsta tímabili með Nantes og skoraði í þeim leikjum fjögur mörk. Eftir það tímabil lék hann einungis fjóra leiki fyrir félagið, vegna þrálátra hnémeiðsla.

Sagður fá um tvær milljónir evra fyrir að rifta samningi sínum

Franskir miðlar hafa síðustu daga aðeins fjallað um helstu málsatvik sem varðar samningsriftun Kolbeins. Miðilinn ButFootball segir að viðræður um samningsriftun hafi staðið í marga mánuði og kostað mikið fjármagn fyrir Nantes.

Sagt er að Kolbeinn hafi viljað fá öll sín laun greidd út til að yfirgefa félagið. Kolbeinn var með um 150. þúsund evrur í vikulaun og það má segja að hann hafi næstum því fengið ósk sína uppfyllta, en það er fullyrt að hann hafi fengið á bilinu 1,7 til 2 milljónir evra í aðra hönd við það að segja upp samningi sínum við félagið.

Nokkur félög hafa áhuga

Áðurnefndi miðilinn, ButFootball, segir þá að félög hafi áhuga á Kolbeini. AZ Alkmaar, sem hann lék með tímabilið 2010-11, er sagt áhugasamt um að fá hann aftur í sínar raðir. Einnig er nefnt þýska B-deildarliðið Union Berlin á nafn í þessum efnum.

Ekki getur Kolbeinn gengið í raðir þessara félaga fyrr en í sumar. Það eina sem er í boði fyrir Kolbein þessa stundina er að fara til félaga í Skandinavíu eða í bandarísku MLS-deildina.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir