Fylgstu með okkur:

Fréttir

Fær tæki­færi til þess að sanna sig á ný

Rúnar Alex fær annað tæki­færi hjá Dijon til að sýna sig og sanna.

ÍV/Getty

Rúnar Alex Rúnarsson mun standa í marki franska liðsins Dijon næstu mánuðina og fær því tæki­færi til þess að sanna sig á ný hjá liðinu.

Alfred Gomis, sem hef­ur verið aðal­markvörður Dijon á leiktíðinni, meiddist illa á hné í síðasta leik liðsins gegn Nantes í frönsku úrvalsdeildinni og þurfti að fara af velli í hálfleik. Rúnar Alex kom inná í hans stað og lék síðari hálfleikinn.

Mynda­taka sem Gomis fór í leiddi í ljós að hann hefði skaddað kross­band í hægra hné. Fram kemur á heimasíðu Dijon að Gomis þurfi ekki gangast undir aðgerð vegna meiðslanna en reiknað er með því að hann verði frá keppni næstu 2-3 mánuðina.

Rúnar Alex var á milli stanganna hjá Dijon í fjórum fyrstu leikjum leiktíðarinnar en missti síðan sæti sitt í liðinu til Gomis. Dijon er í fall­bar­áttu í frönsku úrvalsdeildinni, situr í 17. sætinu eftir 24 umferðir.

Rúnar Alex lék hins vegar tvo leiki í desembermánuði á síðasta ári og hefur verið í markinu í bikarleikjum. Nú fær hann gott tæki­færi til að sýna sig og sanna. Næsti leikur Dijon er í kvöld á heimavelli gegn PSG í átta liða úrslitum frönsku bikarkeppninnar og ekki við öðru að búast en að Rúnar Alex verði í markinu.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir