Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Erfið byrj­un hjá CSKA Mosvku

Hörður Björgvin og Arnór spiluðu allan leikinn fyrir CSKA Moskvu þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Espanyol.

ÍV/Getty

CSKA Moskva tapaði fyrir spænska liðinu Espanyol, 2-0, þegar liðin áttust við í H-riðli Evrópudeildarinnar í kvöld. Leikið var á heimavelli CSKA.

Bæði mörk Espanyol komu í síðari hálfleik. Lei Wu skoraði það fyrra á 64. mínútu eftir að hafa fengið stungusendingu í gegnum vörn CSKA og það síðara gerði Victor Campuzano á fimmtu mínútu uppbótartímans í kjölfar mistaka í vörninni hjá CSKA.

Lokatölur urðu því 2-0, Espanyol í vil, en Hörður Björgvin Magnússon og Arnór Sigurðsson léku allan tímann með CSKA.

CSKA er þar með stigalaust eftir fyrstu tvo leiki sína í riðlinum. Liðið steinlá fyrir Ludogorets Razgrad, 5-1, í fyrstu umferðinni.

Albert Guðmundsson lék þá ekki með AZ Alkmaar þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Manchester United á heimavelli sínum í L-riðlinum.

Fyrr í dag kom það í ljós að Albert verður frá keppni næstu mánuðina vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik um síðustu helgi. Guðmundur Benediktsson, faðir Alberts, greindi frá því á Twitter-síðu sinni að bein í ökkla Al­berts hafi brotnað og læknar telja að hann verði frá keppni næstu fjóra til fimm mánuðina.

AZ Alkmaar er með tvö stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í Evrópudeildinni.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun