Fylgstu með okkur:

Fréttir

Er hægt að verja það að velja leikmenn sem eru í lítilli leikæfingu?

Umræða hefur skapast hvort Emil og Birkir verða valdir í næsta landsliðshóp en þeir eru enn samningslausir.

Erik Hamrén. ÍV/Getty

Gert er ráð fyrir því að Erik Hamrén, landsliðsþjálfari A karla, kjósi að velja Birki Bjarnason og Emil Hallfreðsson í landsliðshóp sinn­ fyr­ir landsleik­i í þessum mánuði gegn heims­meist­ur­um Frakk­lands og Andorra í undan­keppni EM 2020.

Birkir og Emil eru enn samningslausir og umræða hefur skapast hvort þeir verði í landsliðshópnum, sem verður opinberaður næsta föstudag, en báðir leikirnir verða leiknir á Laugardalsvelli, 11. og 14. október.

„Það leyn­ist eng­um að Birk­ir og Emil eru góðir fót­bolta­menn og hafa þjónað ís­lenska landsliðinu vel í gegn­um árin en getur Hamren varið það að velja leikmenn sem eru í lítilli sem engri leikæfingu í landsliðshópinn?“ spyr Guðmundur Hilmarsson, blaðamaður Morgunblaðsins, í blaðinu í dag.

„Bæði Birk­ir og Emil komu við sögu í síðustu leikj­um landsliðsins í undan­keppn­inni sem voru á móti Moldóvu og Alban­íu. Birk­ir var í byrj­un­arliðinu í báðum leikj­un­um og skoraði eitt mark í sig­ur­leikn­um á móti Moldóvu en Emil kom inn á sem varamaður í þeim leik en var í byrj­un­arliðinu á móti Alban­íu.“

„Mér fannst áberandi í leiknum á móti Albönum þar sem Birkir og Emil voru báðir teknir af velli í síðari hálfleik að þá skortir leikæfingu og sérstaklega fannst mér Emil eiga erfitt uppdráttar enda langt um liðið síðan hann spilaði með félagsliði.“

Ennfremur veltir Guðmundur því fyrir sér hvort Birkir Már Sævarsson snúi aftur í hópinn. Hjörtur Hermannsson lék í stöðu hægri bakvarðar síðast, en nokkrir aðdáendur landsliðsins lýstu yfir vandlætingu sinni vegna frammistöðu hans. Guðmundur segir þá að Davíð Örn Atlason, leikmaður Víkings, sé næstbesti kosturinn í þeirri stöðu. Með því lítur hann framhjá Diego Jóhannessyni, Viðari Ara Jónssyni, Hólmari Erni Eyjólfssyni og Adam Erni Arnarsyni sem geta allir leyst stöðuna, en Hólmar og Adam eru hins vegar nýkomnir til baka eftir meiðsli.

„Birkir hefur sjaldan stigið feilspor með landsliðinu og er enn þá besti kosturinn að mínu mati. Næstbesti kosturinn er Davíð Örn Atlason sem hefur spilað svo vel með Víkingum,“ segir Guðmundur Hilmarsson.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir