Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Enginn Íslendingur í sigurliði

Nokkrir Íslendingar léku í Noregi á sama tíma en enginn af þeim var í sigurliði.

Samúel Kári Friðjónsson var í byrjunarliði Viking og lék í 65. mínútur þegar liðið tapaði 4-3 fyrir Bodø/Glimt í norsku úrvalsdeildinni í dag. Oliver Sigurjónsson leikur fyrir Bodø/Glimt en var ekki í leikmannahópi liðsins í dag.

Bodø/Glimt var með 2-1 forystu í leikhléi og komst í síðari hálfleiknum í 4-1 á 66. mínútu, áður en Viking minnkaði muninn með tveimur mörkum á síðustu tuttugu mínútunum. Lokatölur 4-3, Bodø/Glimt í vil.

Viking er eftir 11 leiki í 7. sæti deildarinnar með 17 stig og Bodø/Glimt er í 3. sætinu með 23 stig.

Dagur Dan Þórhallsson vermdi varamannabekkinn allan tímann hjá Mjøndalen sem gerði 1-1 jafntefli við Ranheim í norsku úrvalsdeildinni í dag. Mjøndalen er í 14. sæti deildarinnar, sem er fallumspilssæti, með 11 stig.

Þá tapaði Íslendingaliðið Álasund fyrir Raufoss, 2-1, á útivelli í norsku 1. deildinni í dag. Daníel Leó Grétarsson, Aron Elís Þrándarson og Hólmbert Aron Friðjónsson léku allan leikinn fyrir Álasund í dag og þá kom Davíð Kristján Ólafsson inn á sem varamaður á 78. mínútu leiksins. Torbjørn Agdestein skoraði eftir tuttugu mínútna leik fyrir Álasund í dag og bæði mörk Raufoss komu undir lok beggja hálfleikjanna.

Uppfært: 20:05:

Arnór Smárason byrjaði hjá Lilleström og spilaði allan tímann í 1-0 tapi liðsins gegn Brann á útivelli í norsku úrvalsdeildinni í kvöld. Lilleström er í 12. sæti deildarinnar með 12 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun