Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Endurkomusigur hjá BATE – Rúnar Alex sat á bekkn­um

Willum Þór kom í kvöld inn á sem varamaður þegar lið hans BATE Borisov kom til baka og vann sigur.

Mynd/BATE

Willum Þór Willumsson og samherjar hans í BATE Borisov sigruðu Gorodeya, 2-1, á heimavelli sínum í Hvíta-Rússlandi í kvöld.

Markalaust var í hálfleik en á fyrstu mínútu síðari hálfleiks náði Gorodeya forystunni í leiknum. Leikmenn BATE vöknuðu við markið og sneru við taflinu með tveimur mörkum á síðasta hálftíma leiksins og unnu að lokum 2-1 sigur.

Willum Þór byrjaði leikinn á varamannabekknum en lék síðustu fimm mínúturnar. Þetta var tólfti deildarleikur hans fyrir BATE á leiktíðinni.

BATE er í öðru sæti í efstu deildinni í Hvíta-Rússlandi eftir 19 leiki með 46 stig, fimm stigum á eftir toppliði Dinamo Brest sem hefur leikið einum leik meira en BATE.

Rúnar Alex Rúnarsson sat þá allan tímann á varamannabekk Dijon sem gerði markalaust jafntefli við Nimes í frönsku úrvalsdeildinni. Senegalinn Alfred Gomis stóð á milli stanganna hjá Dijon í leiknum en Rúnar Alex hafði verið í marki liðsins í fyrstu fjórum leikjunum í deildinni.

Dijon hefur farið illa af stað í deildinni og liðið var þarna að næla sér í sitt fyrsta stig eftir að hafa tapað fyrstu fjórum leikjunum.

Kolbeinn Þórðarson kom inn af bekknum á 21. mínútu hjá liði sínu Lommel sem beið lægri hlut fyrir Beerschot, 2-0, í belgísku 1. deildinni. Lommel bíður enn eftir fyrsta sigrinum á leiktíðinni en liðið hefur gert þrjú jafntefli úr sex leikjum.

Þá sat Albert Guðmundsson allan tímann á varamannabekknum hjá AZ Alkmaar sem vann 5-1 stórsigur gegn Sparta Rotterdam í hollensku úrvalsdeildinni. AZ er í fjórða sætinu með 10 stig eftir fyrstu fimm leikina.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun