Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Emil með glæsimark í lokaumferðinni – Sjáðu markið

Emil Hallfreðsson skoraði glæsilegt mark fyrir Udinese í lokaumferð ítölsku úrvalsdeildarinnar.

ÍV/Getty

Emil Hallfreðsson skoraði glæsilegt mark fyrir Udinese í 2-1 sigri liðsins gegn Cagliari í lokaumferð ítölsku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Leonardo Pavoletti kom Cagliari yfir með marki á 17. mínútu og í síðari hálfleiknum jafnaði Emil metin í 1-1 á 59. mínútu með frábæru skoti fyrir utan teig sem flaug yfir markmann Cagliari. Tíu mínútum eftir markið hjá Emil skoraði Sebastien De Maio fyrir Udinese og það reyndist sigurmarkið.

Emil var í kvöld í byrjunarliðinu hjá Udinese í fyrsta skipti síðan hann gekk í raðir félagsins fyrr á þessu ári. Hann hafði komið tvisvar inn á sem varamaður fyrr í þessum mánuði.

Udinese hefur verið í fallbaráttu í ítölsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og með óhagstæðum úrslitum í kvöld hefði liðið getað fallið niður í næstefstu deild. Sigur liðsins var því mjög mikilvægur og liðið endar leiktíðina í 12. sæti með 43 stig.

Emil þekkir vel til Udinese-liðsins því hann var á mála hjá félaginu á árunum 2016-2018. Emil lék 58 leiki með liðinu á þeim tíma.

Mark Emils í leiknum í kvöld er hér:

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið