Fylgstu með okkur:

Fréttir

Emil gæti snúið aft­ur til Hellas Verona

Emil gæti snúið aft­ur til Hellas Verona að því er ít­alsk­ir fjöl­miðlar greina frá í dag.

Emil í leik með Hellas Verona á sínum tíma. ÍV/Getty

Landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson er nú orðaður við endurkomu til síns fyrrverandi félags, Hellas Verona sem leikur í ítölsku A-deildinni. Vefmiðillinn Tuttomercato greinir frá.

Emil, sem er 35 ára, er samningslaus eftir að samningur hans við Udinese rann út í lok júní og leitar nú fyrir sér hjá nýju liði.

Emil var á mála hjá Hellas Verona árin 2010 til 2016 og er í miklum metum hjá stuðningsmönnum liðsins, en Emil fór þaðan til Udinese þar sem hann lék í tvær leiktíðir.

Emil hóf síðustu leiktíð hjá Frosinone í ítölsku A-deildinni en lék aðeins sex leiki fyrir liðið því hann meiddist illa á hné. Í lok tímabilsins gekk hann til liðs við Udinese á nýjan leik og gerði stuttan samning við liðið út tímabilið.

Ítalski miðil­inn Gazzetta dello Sport greindi frá því á dögunum að ítalska B-deildarliðið Ascoli hefði mikinn áhuga á að fá Emil í sínar raðir.

Þrátt fyrir að vera án félags þá var Emil í dag valinn í 23 manna landsliðshóp fyrir leikina við Moldóvu á Laugardalsvelli laugardaginn 7. september og Albaníu á útivelli þriðjudaginn 10. september í undankeppni EM 2020.

Félagskiptaglugg­inn á Ítalíu lok­ar næsta mánudag en Emil fær meiri tíma til að finna sér nýtt félag vegna þess að hann er samningslaus.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir