Fylgstu með okkur:

Fréttir

Emil á leið í ítölsku B-deildina?

Ítalska B-deildarliðið Ascoli Calcio reynir nú að klófesta Emil Hallfreðsson.

Emil í leik með Udinese. ÍV/Getty

Ítalska B-deildarliðið Ascoli Calcio reynir nú að klófesta Emil Hallfreðsson, sem er án félags þessa stundina. Þetta kemur fram í blaði dagsins hjá Gazzetta dello Sport.

Ascoli hefur leikið í ítölsku B-deildinni frá árinu 2015 og lék síðast í A-deildinni árið 2007.

Attilio Malena, blaðamaður ítalska miðilsins Tutto B sem fjallar eingöngu um ítölsku B-deildina, gefur til að kynna á Twitter-síðu sinni að Ascoli sé mjög áhugasamt um Emil.

Emil, sem er 35 ára, er samningslaus eftir að samningur hans við Udinese rann út í lok júní og leitar nú fyrir sér hjá nýju liði.

Um mitt sumar í fyrra gekk Emil í raðir Frosinone en þar áður lék hann tvær leiktíðir fyrir Udinese. Emil lék aðeins sex leiki fyrir Frosinone þar sem hann meiddist illa á hné og þurfti að fara í uppskurð en í lok tímabilsins gekk hann til liðs við Udinese á nýjan leik og gerði stuttan samning við liðið út tímabilið.

Emil æfði með FH-ingum í sumar og hefur verið að bíða eftir nýjum samningi hjá Udinese en síðan þá hefur tíminn liðið og er hann nú opinn fyrir öllum möguleikum.

„Nei, í raun ekki. Ég er far­inn að opna á alla mögu­leika núna. Ég er bara að halda mér í topp­st­andi á meðan og þegar kallið kem­ur verð ég til­bú­inn. Því fyrr því betra, en ég geri ekki neitt nema ég sé ánægður með það,“ sagði Emil í samtali við Morgunblaðið síðasta föstudag.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir