Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Elías Már skoraði og fiskaði víta­spyrnu í ótrú­leg­um leik

Elías Már skoraði og fiskaði víta­spyrnu í miklum markaleik í Hollandi í kvöld.

ÍV/Getty

Elías Már Ómarsson átti góðan leik með liði sínu Excelsior þegar það sigraði Den Bosch, 6-4, á heimavelli sínum í ótrúlegum leik í hollensku B-deildinni í kvöld.

Elías Már lék allan leikinn fyrir Excelsior og kom liðinu á bragðið með fyrsta marki leiks­ins á 27. mínútu. Rai Vloet tvöfaldaði forystuna fyrir Excelsior rétt fyrir leikhlé og var staðan í hálfleik 2-0.

Á aðeins tólf mínútum eftir leikhléið tókst Den Bosch-liðinu að skora hvorki meira né minna en þrjú mörk, áður en Excelsior jafnaði metin í 3-3 á 65. mínútu með marki úr vítaspyrnu sem Elías Már fiskaði. Den Bosch skoraði fjórða markið stuttu síðar en á síðasta korterinu skoraði Excelsior þrjú mörk. Leiknum lauk því með 6-4 sigri Excelsior og Elías Már var val­inn maður leiks­ins í leiks­lok.

Excelsior er í 7. sæti deild­ar­inn­ar og nú með 44 stig eftir 27 umferðir. Tvö efstu lið deildarinnar fara upp um deild í vor á meðan liðin í 3.-8. sæti koma til með að fara í umspil. Elías Már hefur skorað sex mörk í síðustu sex leikjum sínum með Excelsior, en hefur alls skorað 12 mörk á leiktíðinni.

Í frönsku B-deildinni lék Kristófer Ingi Kristinsson síðustu átta mínúturnar með liði sínu Grenoble þegar liðið tapaði 1-0 fyrir Chateauroux. Grenoble er í 9. sæti eftir 26 leiki.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun