Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Elías Már með þrennu og sigurmark í uppbótartíma

Elías Már gerði þrennu og skoraði sigurmark Excelsior í uppbótartíma í hollensku úrvalsdeildinni í dag.

ÍV/Getty

Elías Már Ómarsson var heldur betur á skotskónum með liði sínu Excelsior sem bar sigur úr býtum í miklum markaleik gegn Heracles, 4-5, í hollensku úrvalsdeildinni í dag.

Elías Már skoraði þrennu fyrir Excelsior og þar á meðal sigurmarkið í uppbótartíma. Fyrsta markið hans kom snemma í leiknum, á 4. mínútu, eftir hornspyrnu og rétt fyrir hálfleikinn skoraði hann ótrúlegt mark fyrir utan teig eftir klaufaleg mistök hjá markmanni Heracles. Í þriðja markinu gerði Elías vel með því að fylgja vel á eftir frákasti inn í teig Heracles. Stórkostleikur leikur hjá Elíasi Má sem hafði setið á varamannabekk Excelsior í síðustu fimm leikjum liðsins.

Mikael Neville Andersson sat á varamannabekk Excelsior í leiknum í dag.

Þegar aðeins einn leikur er eftir í hollensku úrvalsdeildinni er ljóst að Excelsior þarf að leika umspilsleiki um að halda sæti sínu í deildinni. Liðið er í þriðja neðsta sæti deildarinnar með 30 stig.

Albert var í byrjunarliði AZ

Albert Guðmundsson var í byrjunarliði AZ sem sigraði PSV Eindhoven 1-0 í hollensku úrvalsdeildini í dag.

Albert var að leika sinn þriðja byrjunarliðsleik í röð en hann var tekinn af velli eftir fyrstu 75. mínúturnar í leiknum í dag.

AZ er í 4. sæti hollensku úrvalsdeildarinnar með 58 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun