Fylgstu með okkur:

Fréttir

Ekki víst að Ögmundur framlengi – Á leið til AEK í Aþenu?

Ögmundur hefur ekki enn framlengt samning sinn við AE Larissa. Samkvæmt grískum fjölmiðlum gæti leið hans legið til AEK í Aþenu.

Mynd/pagenews.gr

Ekki er víst að Ögmundur Kristinsson verði áfram í röðum gríska úrvalsdeildarliðsins AE Larissa á næstu leiktíð.

Undir lok síðasta árs var greint frá því í Grikklandi að Ögmundur hefði náð sam­komu­lagi við AE Larissa um nýjan samning til þriggja ára. Þær fregnir hafa þó ekki verið staðfestar og ekki liggur fyrir samkomulag um framhaldið samkvæmt gríska dagblaðinu Sportime. Vefmiðlarnir Kitenimerosi og Pagenews í Grikklandi skýrðu frá því.

Núverandi samningur Ögmundar við AE Larissa rennur út í lok júní og liðið vill fram­lengja samn­ing­inn sem fyrst, en Ögmundur er sagður hafa hafnað nokkrum samningstilboðum frá liðinu.

Ögmundur hefur leikið afar vel fyrir AE Larissa og á þessari leiktíð hefur hann haldið markinu sex sinnum hreinu, varið tvö víti og verið valinn þrisvar sinnum í lið umferðarinnar. Samkvæmt Sportime gæti leið hans legið til AEK í Aþenu en ekkert verður hins vegar úr þeim félagaskiptum ef markvörðurinn Vasilios Barkas verður áfram í röðum liðsins á næstu leiktíð. AEK er eitt sigursælasta lið Grikklands og er sem stendur í þriðja sæti grísku úrvalsdeildarinnar þegar leiknar hafa verið 23 umferðir.

Á síðasta ári var Ögmundur orðaður við tyrkneska úrvalsdeildarfélagið Kayserispor og skoska úrvalsdeildarfélagið Rangers. Þá kom hann til greina hjá gríska stórliðinu Olympiakos þegar það var í leit að nýjum markverði.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir