Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Eggert og félagar eru sloppnir

Eggert Gunnþór og fé­lag­ar tryggðu sér áfram­hald­andi veru í dönsku úrvalsdeildinni með sigri í dag.

Eggert Gunnþór Jónsson og liðsfélagar hans í SønderjyskE höfðu betur gegn Vejle á heimavelli í fallriðli í dönsku úrvalsdeildinni í dag, 4-1.

Eggert Gunnþór spilaði fyrstu 59. mínúturnar í leiknum en hjá Vejle tók Kjartan Henry Finnbogason út leikbann vegna uppsafnaðra gulra spjalda.

Vejle náði að skora eftir rúmt korter í leiknum en liðið skoraði skallamark af stuttu færi eftir fyrirgjöf. Fimm mínútum fyrir leikhléið dró heldur betur til tíðinda. Varnarmaður Vejle og færeyski landsliðsmaðurinn Viljormur Davidsen ákvað að verja mark með hönd á marklínu og uppskar rautt spjald fyrir. Johan Absalonsen fór á vítapunktinn fyrir SønderjyskE og skoraði af miklu öryggi úr spyrnunni.

Snemma í seinni hálfleik tvöfaldaði Stefan Gartenmann forystuna fyrir SønderjyskE og á síðustu tuttugu mínútunum bætti liðið við tveimur mörkum. Flottur 4-1 sigur hjá Eggert og félögum.

Bæði lið voru í dag að leika sinn síðasta leik í fallriðli eitt í dönsku úrvalsdeildinni. SønderjyskE þurfti í dag á stigi að halda til að sleppa við umspilsleiki um fall í deildinni. Þar með tryggðu Eggert og fé­lag­ar sér áfram­hald­andi sæti í deild­inni með sigrinum í dag.

Vejle þarf hins vegar að leika umspilsleiki við Hobro á næstunni um áframhaldandi veru í deildinni.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun