Fylgstu með okkur:

Fréttir

Eggert í viðræðum um nýj­an samn­ing

Eggert Gunnþór, leikmaður danska liðsins SønderjyskE, gæti skrifað undir nýjan samning hjá félaginu á næstu dögum.

ÍV/Getty

Eskfirðingurinn Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður danska liðsins SønderjyskE, er í samningaviðræðum við félagið samkvæmt heimildum Íslendingavaktarinnar, en núgildandi samn­ing­ur hans renn­ur út í lok júní.

Eggert er einn nokkurra leikmanna SønderjyskE sem eru að renna út á samningi í sumar en hann segist ólmur vilja framlengja samning sinn við félagið.

„Ég hef mikinn áhuga á að vera áfram hjá félaginu. Ég hef átt góðan tíma hérna síðastliðin tvö og hálft ár. Að mínu mati er liðið á réttri leið og ég vil vera hluti af liðinu næstu árin,“ sagði Eggert fyrir rúmri viku síðan í samtali við miðilinn Bold í Danmörku áður en samningaviðræðurnar hófust.

SønderjyskE spilaði sinn síðasta leik á leiktíðinni um síðustu helgi þegar liðið tapaði 3-4 gegn Randers í seinni leik liðanna í Evrópuumspili dönsku úrvalsdeildarinnar. Fyrri leiknum lauk með 1-1 jaftefli og Randers vann því einvígið samanlagt 5-4.

Eggert, sem er 30 ára, gekk í raðir SønderjyskE í janúar 2017 og hefur leikið 59 leiki með liðinu og í þeim leikjum skorað þrjú mörk og lagt upp önnur fimm. Eggert lék áður á atvinnumannaferli sínum með liðunum Fleetwood Town, FC Vestsjælland, Belenenses, Charlton Athletic, Wolves og Hearts.

Eggert á að baki 21 A-landsleik fyrir Ísland.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir