Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Eggert Gunnþór skoraði í sigri SønderjyskE – Sjáðu markið

Eggert Gunnþór skoraði í dag fyrir SønderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni.

Eggert í leik með SønderjyskE. ÍV/Getty

Eggert Gunnþór Jónsson skoraði í dag fyrir SønderjyskE þegar liðið sigraði Esbjerg, 3-1, í dönsku úrvalsdeildinni í dag.

Eggert var í annað skiptið í röð í byrjunarliðinu hjá SønderjyskE og lék allan leikinn í dag, en hann gerði annað mark liðsins í leiknum. Þetta var einnig annar sigur félagsins í röð.

Danska úrvalsdeildin fór aftur af stað fyrir einum mánuði síðan eftir tveggja mánaða vetrarhlé.

Fjórtán lið leika í dönsku úrvalsdeildinni og aðeins einn leikur er eftir af hefðbundnu keppnistímabili. Eftir síðustu umferðina tekur við umspil í deildinni. Efstu sex liðin munu berjast um meistaratitilinn eftirsótta en neðstu átta fara í umspil þar sem skorið verður úr hvaða lið falla niður um deild.

Það er nú ljóst að SønderjyskE verður í síðaranefnda umspilinu. Liðið er í 11. sæti, með 28 stig.

Eggert, sem spilar iðulega sem afturliggjandi miðjumaður, hefur leikið tuttugu leiki í dönsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð og í þeim leikjum hefur hann skorað tvö mörk og lagt upp eitt.

Mark Eggerts í leiknum má sjá hér að neðan

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið