Eggert Aron Guðmundsson, leikmaður Brann, er á meðal þeirra sem tilnefndir eru sem efnilegasti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar fyrir tímabilið 2025.
Tilnefningarnar voru opinberaðar af leikmannasamtökunum NISO í dag, en alls eru sex leikmenn tilnefndir til verðlaunanna „Årets unge spiller“. Tilnefndir eru þeir leikmenn sem eru fæddir árið 2004 eða síðar og hafa leikið að minnsta kosti 1.260 mínútur í að minnsta kosti 14 deildarleikjum þegar valið fór fram.
Eggert Aron, sem er 21 árs gamall, hefur átt frábært tímabil með Brann og verið einn af lykilmönnum liðsins í ár. Hann hefur skorað fimm mörk og lagt upp önnur fimm í 27 leikjum í deildinni. Brann er um þessar mundir í harðri baráttu við Tromsø um Evrópudeildarsæti þegar tvær umferðir eru eftir af tímabilinu.
Verðlaunin verða veitt að lokinni leiktíð, en leikmenn í norsku úrvalsdeildinni, sem og leikmenn norska landsliðsins sem leika erlendis, fá að kjósa sigurvegara.