Fylgstu með okkur:

Fréttir

Efnilegir Blikar eftirsóttir

Sænska úrvalsdeildarfélagið Helsingborg er búið að gera tilboð í Brynjólf Darra, framherja Breiðabliks.

Brynjólfur Darri ásamt Ágúst Gylfasyni, þjálfara Breiðabliks. Mynd/Breiðablik

Erlend félög hafa augastað á ungum leikmönnum Breiðabliks. Þær fréttir hafa borist að sænska úrvalsdeildarfélagið Helsingborg sé búið að gera tilboð í Brynjólf Darra Willumsson, framherja Breiðabliks, en það er Expressen í Svíþjóð sem greinir frá þessu í dag.

Helsingborg er sagt vilja fá Brynjólf Darra í stað Andra Rúnars Bjarnasonar sem yfirgaf félagið í síðasta mánuði og gekk nýverið í raðir þýska félagsins Kaiserslautern.

Fótbolti.net greindi frá því í gær að félag í Svíþjóð væri búið að bjóða í Brynjólf Darra. Nú er ljóst að umrætt félag sé Helsingborg.

Helsingborg er nýliði í sænsku úrvalsdeildinni og situr í 13. sæti deildarinnar með 13 stig að þrettán umferðum loknum. Henrik Larsson, fyrrum leikmaður Barcelona og Manchester United, var nýlega ráðinn þjálfari Helsingborg.

Andreas Granqvist, sem er spilandi yfirmaður fótboltamála hjá Helsingborg, vildi ekki tjá sig mikið í viðtali við Expressen um þær fregnir að félagið væri búið að bjóða í Brynjólf Darra. Granqvist þvertók þó ekki fyrir að einhver fótur væri fyrir fregninni og sagði að félagið væri í leit að framherja og markmanni.

Brynjólfur Darri hefur leikið 10 leiki fyrir Breiðablik í sumar og þá á hann að baki 13 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Willum Þór, sem leikur fyrir BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi, er eldri bróðir Brynjólfs Darra.

Östersund hefur áhuga á Kolbeini Þórðarsyni

Fótbolti.net greindi frá því fyrr í vikunni að sænska úrvalsdeildarfélagið Östersund sé áhugasamt um að klófesta Kolbein Þórðarson, leikmann Breiðabliks.

„Það kom fyrirspurn í Kolbein en það eru samt sem áður engar nýjar fréttir í því. Það koma reglulega fyrirspurnir varðandi hann,“ sagði Sigurður Hlíðar Rúnarssonar, starfsmaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, í samtali við Fótbolta.net á dögunum.

Kolbeinn er 19 ára gamall og hefur spilað 10 leiki fyrir Breiðablik í sumar og í þeim leikjum skorað 4 mörk. Kolbeinn á að baki 10 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Kolbeinn og Brynjólfur Darri. Mynd/Breiðablik

Segir að það sé búið að selja Aron til Újpest

Fyrr í vikunni var greint frá því að Breiðablik hefði samþykkt til­boð ungverska úrvalsdeildarfélagsins Újpest í Aron Bjarnason.

Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Breiðabliks, staðfesti þær fréttir við Blikar.is, stuðningsmannasíðu Breiðabliks, í gær.

„Það er búið að selja Aron. Hann er búinn að vera frábær með okkur í sumar og það er mikill missir af honum.“

„Hann á þetta skilið, að fá sénsinn að fara út. Við ákváðum það, að leyfa honum það. Hann vildi það og félagið sem er að fá hann var spennt að fá hann og bauð okkur gott verð þannig að við ákváðum það að leyfa honum að fara,“ sagði Ágúst við Blikar.is.

Aron er 23 ára gamall miðju- og sóknarmaður og er að leika sitt þriðja tímabil með Breiðabliki. Hann hefur leikið 49 leiki fyrir liðið og í þeim skorað 12 mörk.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir