Fylgstu með okkur:

Fréttir

Draum­ur að ræt­ast hjá Rún­ari Má: Spilar á Old Trafford á morgun

Rúnar Már og samherjar hans í Astana fara á morgun í heimsókn til Manchester United á Old Trafford.

Mynd/Samsett

Skagfirðingurinn Rúnar Már Sigurjónsson, leikmaður Astana í Kasakstan, spilar á morgun stóran leik með liði sínu sem fer í heimsókn til Manchester United á Old Trafford í Evrópudeildinni.

Rúnar Már ólst upp sem mikill stuðningsmaður Manchester United og öll fjölskylda hans eru miklir stuðningsmenn félagsins. Frá unga aldri hef­ur Rúnar nokkr­um sinn­um gert sér ferð á Old Trafford og á morgun mun hann fá góðan stuðning frá sínum nánustu en á fjórða tug vina og ættingja hans verða á leiknum.

Rún­ar er í viðtali hjá The At­hletic í aðdraganda leiksins. Þar talar hann um viðbrögðin sín þegar hann áttaði sig á því að hann myndi mæta Manchester United og þá talar hann einnig um ást sína á félaginu.

Astana dróst í L-riðli með Manchester United ásamt serbneska liðinu Partizan og hollenska liðinu AZ Alkmaar. Manchester United dróst því gegn tveimur Íslendingaliðum en Albert Guðmundsson leikur með AZ Alkmaar.

„Ég sá nafn Manchester United og hugsaði bara vá,“ sagði Rúnar Már við The Athletic.

„Ég sá ekki hver hin tvö liðin í riðlinum voru fyrr en nokkrum klukkutímum síðar. Ég var einn í flugvélinni að hugsa um Manchester United en gat ekki talað við neinn.“

„Þegar ég lenti loksins þá sá ég hver hin tvö liðin í riðlinum voru. Síminn minn fylltist af skilaboðum frá vinum mínum en allir vita hvað mitt lið er og flestir vinir mínir styðja líka Manchester United.“

„Manchester United er liðið sem öll fjölskyldan mín styður og eins og allir á Íslandi þá eru þau brjáluð í enska boltann. Þau myndu frekar styðja lið sitt á Englandi heldur en heimaliðið á Íslandi“

„Mig dreymdi aldrei um að fara á Old Trafford öðruvísi en að vera áhorfandi. Ég sá sjálfan mig sem framtíðar ársmiðahafa þar þegar ég hætti að spila en núna er ég að fara að spila þar. Ég er mjög rólegur yfir leiknum en mjög ánægður með að fjölskylda mín geti séð mig spila á vellinum sem þau hafa heimsótt í 30 ár.“

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir