Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Drama­tík hjá Hirti – Eggert spilaði í jafntefli

Hjörtur og samherjar hans í Brøndby misstu unninn leik niður í jafntefli gegn Randers.

Mynd/3point.dk

Hjörtur Hermannsson og samherjar hans í Brøndby misstu unninn leik niður í jafntefli gegn Randers á útivelli í 2. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Hjörtur lék all­an leik­inn í stöðu miðvarðar með Brøndby sem hafnaði á síðustu leiktíð í 4. sæti deildarinnar.

Leikurinn byrjaði með látum og eftir aðeins níu mínútna leik var staðan orðin 1-1. Randers komst yfir á 8. mínútu leiksins en Brøndby brást vel við markinu og jafnaði metin í næstu sókn, aðeins einni mínútu síðar.

Það stefndi allt í 1-1 jafntefli í leiknum en Mikael Uhre skoraði fyrir gestina í Brøndby þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma og virtist þar hafa tryggt liðinu sigur. Svo reyndist ekki vera, því Randers náði að jafna metin í 2-2 á fimmtu mín­útu upp­bót­ar­tím­ans. Lokatölur í leiknum urðu 2-2.

Brøndby hefur 4 stig eft­ir fyrstu tvær um­ferðirn­ar í deild­inni en liðið vann Sil­ke­borg í 1. umferð deildarinnar.

Eskfirðingurinn Eggert Gunnþór Jónsson hóf fyrr í dag leik á varamannabekknum hjá SønderjyskE sem gerði 1-1 jafntefli við Álaborg í dönsku úrvalsdeildinni. Eggert var settur inn á þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum og nældi sér í gult spjald á 84. mínútu leiksins.

Þá sat markvörðurinn Frederik Schram allan tímann á varamannabekknum hjá SønderjyskE í leiknum.

SønderjyskE er með 4 stig, líkt og Brøndby, eftir fyrstu tvær um­ferðirn­ar í deild­inni.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun