Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Dinamo hafði betur í granna­slagn­um

Dinamo Moskva hafði betur gegn grönnum sínum í CSKA Moskvu.

Dinamo Moskva hafði betur gegn grönnum sínum í CSKA Moskvu, 1-0, í rússnesku úrvalsdeildinni í dag.

Hörður Björgvin Magnússon var í byrjunarliði CSKA Moskvu og lék allan leikinn á meðan Arnór Sigurðsson spilaði síðasta hálftímann sem varamaður með liðinu.

CSKA fékk tækifæri á 23. mínútu til þess að komast yfir í leiknum þegar liðið fékk vítaspyrnu en Nikola Vlasic fór á vítapunktinn og brást bogalistinn.

Clinton N’Jie, sem lék áður með Tottenham, skoraði sigurmarkið í leiknum á lokakaflanum, en hann komst þá inn fyrir Hörð Björgvin í vörninni og skoraði framhjá markverði CSKA.

CSKA er sigurlaust í síðustu þremur leikjum sínum og situr í 5. sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar með 26 stig eftir 14 umferðir.

Rúnar Már og Albert fjarverandi

Rúnar Már Sigurjónsson lék ekki með liði sínu Astana sem rótburstaði Aktobe, 5-0, í efstu deildinni í Kasakstan.

Rúnar tognaði í leik með landsliðinu á dögunum en snýr líklega aftur á völlinn í næsta mánuði. Astana er í öðru sæti með 63 stig eftir 30 leiki.

Albert Guðmundsson lék þá ekki fyrir AZ Alkmaar í 4-0 útisigri liðsins gegn PSV í hollensku úrvalsdeildinni. AZ fór með sigrinum upp í annað sæti deildarinnar og upp í 23 stig.

Albert verður frá keppni í nokkra mánuði eftir að hafa fótbrotnað í síðasta mánuði.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun