Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Davíð Kristján skoraði og lagði upp í ótrú­leg­um sigri

Davíð Kristján var í aðalhlutverki í ótrúlegum sigri Álasundar í norsku 1. deildinni í dag.

Mynd/Sunnmørsposten

Davíð Kristján Ólafsson átti mjög góðan leik þegar lið hans Álasund vann ótrúlegan sigur á KFUM í norsku 1. deildinni í dag.

KFUM náði forystunni í leiknum á 25. mínútu, en Davíð Kristján skoraði fyrsta mark Álasundar beint úr hornspyrnu og jafnaði leikinn í 1-1 á 49. mínútu.

KFUM komst aftur yfir á 65. mínútu og liðið hélt þeirri forystu þar til á 88. mínútu þegar Sondre Fet jafnaði metin í 2-2 fyrir Álasund.

Álasund sneri leiknum sér í vil í uppbótartímanum og skoraði tvö mörk með aðeins tveggja mínútna millibili. Torbjørn Agdestein skoraði eftir undirbúning hjá Davíð Kristjáni þegar ein mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma og á þriðju mínútu upp­bót­ar­tím­ans skoraði Pape Gueye fjórða og síðasta markið fyrir Álasund. Lokatölur 4-2 fyrir Álasund í ótrúlegum leik.

Davíð Kristján lék allan leikinn fyrir Álasund í dag og sömu sögu er að segja af Aroni Elís Þrándarsyni og Daníel Leó Grétarssyni. Hólmbert Aron Friðjónsson var einnig í byrjunarliði Álasundar en hann var tekinn af velli á 68. mínútu leiksins.

Álasund er á toppi norsku 1. deildarinnar með 35 stig að loknum 14 umferðum.

Kristján Flóki Finnbogason var þá á skotskónum fyrir Start sem sigraði Hamarkameratene, 4-1, í norsku 1. deildinni í dag.

Kristján Flóki byrjaði leikinn á varamannabekknum en kom inn á sem varamaður á 78. mínútu. Aðeins fimm mínútum síðar skoraði hann fjórða og síðasta mark Start í leiknum eftir stoðsendingu Arons Sigurðarsonar, sem spilaði allan leikinn.

Kristján Flóki er á förum frá Start en hann gengur í raðir KR í lok þessa mánaðar.

Start er með 25 stig í 4. sæti deildarinnar eftir 13 leiki.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið