Fylgstu með okkur:

Fréttir

Davíð Kristján og Daníel Leó í liði vik­unn­ar

Davíð Kristján og Daníel Leó eru báðir í liði vik­unn­ar í norsku 1. deildinni.

Leikmenn Álasundar fagna hér marki síðasta laugardag. Mynd/Álasund

Davíð Kristján Ólafsson og Daníel Leó Grétarsson, leikmenn Álasundar, eru báðir í liði vikunnar í norsku 1. deildinni.

Davíð Kristján og Daníel Leó léku afar vel með Álasund þegar liðið vann 3-1 sigur gegn Strømmen síðasta laugardag. Davíð Kristján lagði upp tvö fyrstu mörk Álasundar í leiknum en þeir Daníel Leó og Hólmbert Aron Friðjónsson skoruðu mörkin. Þeir þrír léku allan leikinn fyrir Álasund og sömu sögu er að segja um Aron Elís Þrándarson.

Strømmen náði að minnka muninn niður í eitt mark eftir rúmlega klukkutíma leik en Pape Habib Gueye innsiglaði sigurinn fyrir Álasund á 82. mínútu, þar sem lokatölur leiksins urðu 3-1.

Daníel Leó var einnig valinn í lið vikunnar í síðustu viku og er þetta í þriðja sinn á leiktíðinni sem hann hlýtur þann heiður að vera í úrvalsliðinu. Þetta er í annað sinn á leiktíðinni sem Davíð Kristján er valinn í úrvalsliðið.

Álasund er í efsta sæti deildarinnar og styrkti stöðu sína enn frekar með sigrinum um helgina, en liðið hefur nú 44 stig er með sjö stiga forskot á Sandefjord sem er í öðru sæti.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir