Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Davíð Kristján og Aron Elís lögðu báðir upp í sigri

Davíð Kristján og Aron Elís lögðu upp sitt markið hvor í dag þegar Álasund hrósaði sigri í Noregi.

Mynd/Álasund

Íslendinaliðið Álasund sigraði Hamarkameratene 5-2 þegar liðin mættust í norsku 1. deildinni í dag. Eins og svo oft áður voru Íslendingar áberandi í liði Álasunds.

Davíð Kristján Ólafsson og Aron Elís Þrándarson lögðu upp sitt markið hvor í leiknum í dag en þeir léku allan leikinn. Daníel Leó Grétarsson var í byrjunarliði Álasunds og lék fyrstu 69 mínúturnar og þá kom Hólmbert Aron Friðjónsson inn á sem varamaður á 74. mínútu leiksins.

Davíð Kristján lagði upp fyrsta mark leiksins eftir aðeins sex mínútna leik en Hamarkameratene-liðið náði að jafna metin á 13. mínútu. Leikurinn var ekki jafn lengi því Álasund náði á ný forystunni á 16. mínútu og skoraði þriðja markið svo um átta mínútum síðar. Staðan 3-1 í hálfleik.

Aron Elís hóf síðari hálfleikinn vel en hann lagði upp mark á 53. mínútu fyrir liðsfélaga sinn Niklas Castro sem skoraði þar sitt annað mark í leiknum. Castro fullkomnaði síðan þrennu sína á 71. mínútu áður en Hamarkameratene skoraði sárabótarmark rétt fyrir leikslok. Lokatölur 5-2, Álasund í vil.

Þetta var áttundi sigur Álasunds í röð í deildinni en liðið hefur nú 43 stig á toppi deild­ar­inn­ar og er með ellefu stiga forskot á Start og Sandefjord að loknum 20 umferðum.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun