Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Davíð Kristján arki­tekt­inn að mörkum Daníels og Hólmberts

Davíð Kristján átti þátt í tveim­ur íslenskum mörk­um Álasundar í dag en þeir Daníel Leó og Hólmbert Aron skoruðu mörkin.

Davíð Kristján. Mynd/Adressa.no

Davíð Kristján Ólafsson var arki­tekt­inn að fyrstu tveimur mörkum Álasundar í 3-1 sigri liðsins gegn Strømmen í norsku 1. deildinni í dag en það voru þeir Daníel Leó Grétarsson og Hólmbert Aron Friðjónsson sem skoruðu mörkin, bæði eftir undirbúning Davíðs Kristjáns.

Davíð Kristján, Daníel Leó, Hólmbert Aron og Aron Elís Þrándarson voru allir í byrjunarliði Álasundar í dag og léku allan leikinn.

Daníel Leó skoraði eftir níu mínútna leik og Hólmbert Aron skoraði rétt fyrir leikhléið, á 42. mínútu.

Strømmen minnkaði muninn eftir rúman klukkutíma leik en Pape Habib Gueye innsiglaði sigurinn fyrir Álasund á 82. mínútu leiksins og lokatölur urðu 3-1.

Álasund var fyrir leikinn í efsta sæti deildarinnar og hefur nú styrkt stöðu sína enn frekar. Liðið hefur nú 44 stig er með sjö stiga forskot á Sandefjord sem er í öðru sæti.

Samúel Kári Friðjónsson lagði upp eina mark Viking þegar liðið tapaði 2-1 gegn Bodø/Glimt í norsku úrvalsdeildinni í dag. Samúel Kári lék allan leikinn á miðjunni hjá Viking en Oliver Sigurjónsson var ekki í leikmannahópi Bodø/Glimt. Viking er í 9. sæti deildarinnar með 19 stig á meðan Bodø/Glimt er í öðru sæti með 35 stig, einu stigi á eftir toppliði Molde.

Guðmundur Þórarinsson spilaði allan tímann Norrköping þegar liðið vann 2-0 sigur á Elfsborg á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Norrköping er í 7. sæti deildarinnar með 31 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun