Fylgstu með okkur:

Fréttir

Dá­sam­ar Kaupmannahöfn: „Þegar ég er hér þá líður mér vel í sálinni“

Ragnar hefur frá unga aldri verið heillaður af Kaupmannahöfn og fer afar fögrum orðum um borgina í viðtali við dagblaðið Tipsbladet.

ÍV/Getty

Ragnar Sigurðsson gekk til liðs við danska úrvalsdeildarliðið FC Kaupmannahöfn á nýjan leik fyrr í mánuðinum og gerði samning við liðið sem gildir út tímabilið. Ragnar lék áður með FC Kaupmannahöfn við góðan orðstír á árunum 2011 til 2014.

Ragnar var tek­inn í afar áhuga­vert viðtal af danska dagblaðinu Tipsbladet  á dögunum, þar sem hann dásamar Kaupmannahöfn út í hið óendanlega. Frá unga aldri hefur hann verið heillaður af borginni.

„Þetta hófst allt saman þegar ég fór í ferðalag með fjölskyldunni minni til Kaupmannahafnar þegar ég var fimm eða sex ára gamall. Ég man ekki mikið eftir ferðinni sjálfri en það sem ég man helst eftir var hversu mikið ég elskaði borgina. Hún festist í huga mér þegar ég var ungur og er þar enn,“ sagði Ragnar í ítarlegu viðtali við danska dagblaðið Tipsbladet  fyrir nokkrum dögum.

Á árunum 2007 til 2011 lék Ragnar með Gautaborg í Svíþjóð og á þeim tíma gerði Ragnar sér oft ferð til Kaupmannahafnar þegar tími gafst til.

„Þegar ég lék og bjó í Gautaborg þá fór ég oft til Kaupmannahafnar þegar tæki­færið gafst til að fara þangað. Síðan þegar besti vinur minn frá Íslandi kíkti í heimsókn þá fórum við saman keyrandi til Kaupmannahafnar þegar tími gafst til. Ég gerði mér einnig ferð í borgina ásamt liðsfélaga mínum Theodóri Elmari og unnustu hans. Á þeim tíma þekkti ég engan í borginni, en síðar meir átti ég eftir að eignast fullt af góðum vinum.“

Spurður hvað væri mest heillandi við Kaupmannahöfn, svaraði hann:

„Það er erfitt að útskýra hvað það er sem hrífur mig mest við borgina. Andrúmsloftið er bara svo gott í Kaupmannahöfn. Þegar ég er hér þá líður mér vel í sálinni. Andrúmsloftið er afslappað og það er eins og þú njót­ir lífs­ins meira hérna eftir því sem tíminn líður.“

Miklu meiri samkeppni á Íslandi

Athyglisverðasta í viðtalinu var þegar Ragnar var beðinn um bera saman Danmörku og Ísland, en að mati hans snýst þetta á Íslandi meira um samkeppni við næsta mann.

„Andrúmsloftið á Íslandi er allt öðruvísi. Þar snýst þetta um miklu meiri samkeppni. Hver og einn vill vera betri en næsti maður, líta betur út, vera eitthvað ákveðið og eiga eitthvað sem aðrir eiga ekki. Þannig lítur það út fyrir mér þegar þessir mismunandi staðir eru bornir saman. Mér líður betur í afslappaðra umhverfi.

Í Kaupmannahöfn færðu aðgang að öllu þegar kemur að frítíma, t.d. menn­ing­ar­viðburðum og veitingastöðum. Það er allt hérna. En það sem veitir mér hina mestu ánægju er að rölta um borgina og skoða mig um, kynnast andrúmsloftinu og borginni sjálfri.“

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir