Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Darmstadt með endurkomu eftir að Victor fór af velli

Guðlaugur Victor og félagar unnu flottan endurkomu sigur í þýsku B-deildinni í dag.

Guðlaugur Victor Pálsson og félagar hans í Darmstadt sóttu frábæran endurkomu sigur á Hamburger í þýsku B-deildinni í dag, en leiknum lauk með 2-3 útisigri Darmstadt.

Guðlaugur Victor byrjaði á miðjunni hjá Darmstadt og lék í 80. mínútur áður en hann var tekinn af velli, í stöðunni 1-2.

Hamburger komst í góða stöðu eftir að hafa skorað tvö mörk þegar aðeins korter var búið af leiknum.

Darmstadt minnkaði muninn á 52. mínútu leiksins og rúmum hálftíma síðar, á 82. mínútu, náði liðið að jafna leikinn í 2-2.

Allt stefndi í jafntefli en allt kom fyrir ekki. Darmstadt skoraði sitt þriðja mark í framlengingunni og liðið tryggði sér góðan 2-3 endurkomu sigur.

Um var að ræða annan sigur Darmstadt í röð. Liðið sigraði Holstein Kiel, 3-2, um síðustu helgi.

Það má segja að Guðlaugur Victor og félagar séu búnir að losa sig við falldrauginn eftir sigur í dag. Darmstadt siglir nú lignan sjó, í 11. sæti deildarinnar, með 32 stig, þegar átta umferðir eru eftir af deildinni.

Guðlaugur Victor verður í landsliðshópi Íslands sem mætir Andorra næsta föstudag og Frakklandi aðeins þremur dögum síðar í undankeppni Evrópumótsins 2020.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun