Fylgstu með okkur:

Fréttir

Daní­el Leó enn í liði um­ferðar­inn­ar – Í fyrsta sinn í A-landsliðshópi

Daníel Leó var í dag val­inn í fimmta sinn í lið um­ferðar­inn­ar í Noregi og var þá einnig kallaður inn í íslenska A-landsliðshópinn.

Mynd/smp.no

Daní­el Leó Grét­ars­son, leikmaður Álasunds í Noregi, var í dag val­inn í fimmta sinn í lið um­ferðar­inn­ar í norsku 1. deildinni.

Lið hans vann í gær 4-0 sigur á Jerv í deildinni og var Daníel Leó enn og aftur öflugur í vörninni með liði sínu. Aron Elís Þrándarson var á skotskónum fyrir Álasund í leiknum en hann var í byrjunaliði liðsins ásamt þeim Davíð Kristjáni Ólafssyni og Daníel Leó. Hólmbert Aron Friðjónsson kom þá inn af bekknum í síðari hálfleik.

Álasund hefur unnið níu sigra í röð í deildinni og er með 56 stig á toppi deild­ar­inn­ar, ellefu stiga forskot á bæði Start og Sandefjord eftir 21 umferð.

Daníel Leó var í síðustu viku valinn í lið umferðarinnar í fjórða sinn á þessari leiktíð.

Daníel Leó var í dag kallaður inn í ís­lenska A-landsliðshóp­inn fyr­ir leik­ina gegn Moldóvu og Alban­íu í undan­keppni EM 2020, en hann kemur inn í landsliðshópinn fyrir Sverri Inga Ingason, leikmann PAOK.

Þetta er í fyrsta sinn sem Daníel er valinn í A-landsliðið en hann á að baki sex leiki með U-21 árs liði Íslands.

„Ég fékk bara skila­boðin í gær­kvöld. Þau komu mér á óvart en maður tek­ur þessu með rosa­legri gleði. Að sjálf­sögðu hef­ur alltaf verið mark­miðið hjá manni að kom­ast í A-landsliðið hvort sem það er núna eða síðar og ég er auðvitað virki­lega stolt­ur að vera kom­inn í hóp­inn,“ sagði Daní­el Leó við mbl.is í dag.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir