Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Daníel kom við sögu í sigri

Daníel Hafsteinsson kom inn á í síðari hálfleik þegar lið hans Helsingborg lagði Östersunds í Svíþjóð.

Daníel Hafsteinsson kom inn á í síðari hálfleik þegar lið hans Helsingborg mætti Östersunds á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Helsingborg vann leikinn 2-0. Daníel byrjaði á bekknum en kom inn á sem varamaður á 84. mínútu leiksins.

Max Svensson kom Helsingborg á bragðið með fallegu skoti rétt fyrir utan teig á 11. mínútu og Alhaji Gero tvöfaldaði forystuna á 33. mínútu leiksins og þar við sat í markaskorun.

Með sigrinum fór Helsingborg upp í 21 stig og 10. sæti deildarinnar en liðið hefur spilað 22 leiki í deildinni.

Í sænsku B-deildinni lék Bjarni Mark Antonsson allan leikinn fyrir IK Brage sem gerði 1-1 jafntefli við GAIS. Brage er í öðru sætinu með 41 stig, aðeins einu stigi á eftir toppliði Mjällby eftir 22 umferðir.

Eggert Gunnþór Jónsson spilaði þá síðustu tuttugu mínúturnar með SønderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Odense. Ísak Óli Ólafsson sat allan tímann á varamannabekk SønderjyskE, sem hefur 10 stig og er í 7. sæti deildarinnar eftir átta umferðir.

Í pólsku úrvalsdeildinni sat Adam Örn Arnarson allan tímann á varamannabekknum hjá Gornik Zabrze sem laut í lægra haldi fyrir Arka Gdynia, 1-0. Gornik Zabrze er í 8. sæti með 10 stig úr sjö leikjum.

Þá var Oliver Sigurjónsson ekki sjáanlegur í leikmannahópi Bodø/Glimt sem tapaði 3-1 gegn Odds Ballklubb í norsku úrvalsdeildinni. Bodø/Glimt er enn á toppi deildarinnar með 42 stig þrátt fyrir tap í kvöld en Molde, sem er í öðru sæti, á leik leik til góða og getur náð toppsætinu. Tíu umferðir eru eftir af deildinni.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun