Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Dagný mun berj­ast um titil­inn

Dagný og stöllur hennar í Portland Thorns hafa tryggt sér sæti í fjög­urra liða úr­slit­un­um um banda­ríska meist­ara­titil­inn

Portland Thorns, sem Dagný Brynjarsdóttir leikur með, mun berjast um meistaratitilinn í bandarísku atvinnumannadeildinni. Liðið vann í nótt 1-0 sigur á Hou­st­on Dash en með sigrinum tryggði liðið sér sæti í fjög­urra liða úr­slit­un­um um banda­ríska meist­ara­titil­inn.

Port­land hafði fyrir leikinn tapað tveim­ur leikj­um í röð en komst aftur á sigurbraut þar sem Tobin Heath skoraði sigurmark liðsins á 48. mínútu í leiknum í nótt. Dagný byrjaði leikinn fyrir Port­land og lék hann allan.

Gunn­hild­ur Yrsa Jónsdóttir hjá Utah Royals lék þá allan tímann þegar lið hennar tapaði fyrir toppliði North Carol­ina Coura­ge, 3-0.

Portland er í þriðja sæti deildarinnar með 39 stig þegar tveimur umferðum er ólokið áður en fjög­urra liða úr­slit­in um titilinn hefjast. North Carol­ina er í efsta sætinu og hefur 46 stig og Chicago Red Stars er með 41 stig í öðru sætinu.

Utah Royals, lið Gunnhildar Yrsu, hefur 31 stig í fjórða sætinu og er í harðri baráttu við lið Reign sem er með jafnmörg stig en með lakari markatölu. Royals og Reign mætast aðfaranótt fimmtudagsins 26. september í gríðarlega mikilvægum leik.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun