Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Cardiff er fallið úr ensku úrvalsdeildinni

Því miður fór það svo að Aron Einar og samherjar hans í Cardiff City féllu úr ensku úrvalsdeildinni í dag.

ÍV/Getty

Cardiff er fallið niður í næstefstu deild á Englandi eftir tap á heimavelli gegn Crystal Palace, 1-3, í dag.

Cardiff dugði ekkert minna en sigur í dag til að eiga möguleika á því að spila í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Aron Einar Gunnarsson var að spila sinn síðasta heimaleik fyrir Cardiff í dag og hann spilaði allar mínúturnar í leiknum.

Aron Einar gengur í raðir Al-Arabi í Katar í byrjun júlí og þar mun hann leika undir stjórn Heimis Hallgrímssonar.

Aron Einar og félagar byrjuðu leikinn á marktilraun í tréverkið strax á fyrstu mínútu en það var Josh Murphy sem átti tilraunina.

Wilfried Zaha kom Crystal Palace á bragðið á 28. mínútu þegar hann skoraði laglegt mark í neðra hægra hornið. Aron Einar sinnti góðum varnarleik áður en Zaha náði skotinu en það dugði ekki til. Örfáum mínútum síðar skoraði Martin Kelly, varnarmaður Crystal Palace, klaufalegt sjálfsmark þar sem hann hitti boltann illa þegar hann var að reyna að koma boltanum í burtu.

Crystal Palace sýndi frábæra takta rétt fyrir leikhléið þegar Michy Batshuayi skoraði inn í teig Cardiff eftir frábært þríhyrningsspil við André Ayew. 1-2 fyrir Crystal Palace í leikhléinu.

Tuttugu mínútum fyrir leikslok skoraði Andrew Townsend þriðja mark Crystal Palace og á síðustu mínútu leiksins minnkaði Bobby Reid muninn fyrir Cardiff í 2-3 og það reyndist síðasta markið. 2-3 tap hjá Aroni Einari og félögum sem eru því miður fallnir niður um deild.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun