Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Böðvar lék allan tímann í jafntefli

Böðvar spilaði allan tímann í jafntefli í pólsku úrvalsdeildinni í dag.

Böðvar Böðvarsson var í dag í byrjunarliðinu hjá Jagiellonia Bialystok og lék allan tímann þegar liðið gerði 3-3 jafntefli við Lech Poznan í pólsku úrvalsdeildinni.

Þetta var þriðji byrjunarliðsleikur Böðvars í röð með liðinu.

Liðin voru í dag að mætast í efra umspili pólsku úrvalsdeildarinnar sem nú er nýhafið. Efstu átta liðin frá því í vetur leika í efra umspilinu um pólska meistaratitilinn á meðan neðstu átta eru í fall-umspili.

Eftir tuttugu mínútur í leiknum var Lech Poznan búið að skora tvö mörk og komið með fína forystu en Jagiellonia náði að jafna metin með tveimur mörkum sitt hvoru megin við hálfleikinn.

Eftir 64. mínútur skoraði Jagiellonia þriðja markið og rúmu korteri síðar jafnaði Lech Poznan metin í 3-3 og þar við sat.

Böðvar og samherjar hans komust fyrir tveimur vikum í úr­slit pólska bik­ars­ins eft­ir 2-1 sig­ur á Legnica í undanúr­slit­un­um keppninnar.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun