Fylgstu með okkur:

Fréttir

Blæs á kjaftasögurnar sem fóru á kreik í Rússlandi: „Al­gjör þvæla“

Ragnar hef­ur blásið á þann orðróm sem fór á kreik í Rússlandi í byrjun árs að hann eigi við einhver áfengisvandamál að stríða.

ÍV/Getty

Ragnar Sigurðsson, leikmaður FC Kaupmannahafnar, hef­ur blásið á þann orðróm sem fór á kreik í Rússlandi í byrjun árs að hann eigi við einhver áfengisvandamál að stríða.

Fjölmiðlar í Rússlandi fjölluðu um það í síðasta mánuði að Ragnar hafi verið leystur undan samningi hjá rússneska úrvalsdeildarliðinu Rostov vegna alvarlegra áfengisvandamála. Rostov sendi í kjölfarið frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar fjölmiðla í Rússlandi í tengslum við Ragnar og vísaði þeim fregnum alfarið á bug.

Ragnar var tek­inn í áhuga­vert viðtal af danska dagblaðinu BT síðasta föstudag og þar er hann spurður út í kjafta­sög­urn­ar í Rússlandi.

„Það er slúðrað mikið og það eru sögur um hitt og þetta. Ég er einfaldlega farinn að venjast því. Það hafa einnig sögur verið á kreiki á Íslandi um aðra leikmenn í gegnum tíðina,“ sagði Ragnar við BT.

„Eins og þú hefur tekið eftir, þá sendi Rostov frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar í Rússlandi. Þar var varað fjölmiðla við því að fjalla ekki um mál sem þeir hafa ekki hundsvit á. Fyrir mér var málinu lokið eftir það, því Rostov kvað endanlega niður orðróminn og þar af leiðandi þurfti ég ekki að gera neitt.“

Spurður hvernig orðrómurinn gæti hafa sprottið upp og hvernig hann tæklaði málið, svaraði hann:

„Það er mikið um slúður í Rússlandi, eins og í öðrum löndum, en ég hef ekki hugmynd. Ég er ekki mikið að hugsa um þetta. Þetta fór frekar í taugarnar hjá fjölskyldunni minni og vinum mínum.

Það ger­ir bara illt verra að láta þetta hafa áhrif á sig og vera að hugsa um þetta. Ef ég væri alkóhólisti þá er ég viss um að ég hefði ekki náð að afreka það sem ég hef gert á síðustu árum, með landsliðinu og mínum félagsliðum. Þessi orðrómur er því al­gjör þvæla.“

Varð að fylgja hjartanu

Ragnar gekk í raðir danska úrvalsdeildarliðið FC Kaupmannahöfn á nýjan leik stuttu eftir orðróminn. Hann segist hafa fylgt hjartanu í þeirri ákvörðun um að fara aftur til Kaupmannahafnar.

„Ég átti aðeins hálft ár eftir af samningi mínum í Rússlandi, en þegar umboðsmaður minn var byrjaður að tala við Ståle Solbakken, knattspyrnustjóra FC Kaupmannahafnar, þá vildi ég ekki missa af tækifærinu. Ég hugsaði með sjálfum mér að þetta gæti verið eina tækifærið. Ég vildi mjög mikið fara aftur til FC Kaupmannahafnar og til borgarinnar. Ég varð að fylgja hjartanu.

Ég vil alltaf leggja mig fram þegar ég er að spila. Ég er orðinn 33 ára gamall og farinn að eldast, en fótboltinn er ekki búinn hjá mér. Við sjáum til hvernig staðan verður eftir sumarið, hvort ég framlengi eða spili annars staðar. Nú vil ég vera í eins góðu lík­am­legu formi og kost­ur er,“ sagði Ragnar að lokum.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir