Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Bjarni Mark lék all­an tím­ann í sigri Brage

Bjarni Mark spilaði í dag allan tímann fyrir IK Brage sem vann 2-0 sigur í Svíþjóð.

IK Brage vann góðan 2-0 heimasigur á Trelleborgs FF í sænsku B-deildinni í dag. Siglfirðingurinn Bjarni Mark Antonsson lék allan leikinn á miðri miðjunni hjá IK Brage.

Heimamenn í Brage komust yfir snemma leiks en Christian Kouakou skoraði fyrir liðið eftir aðeins tveggja mínútna leik. Brage hóf síðari hálfleikinn líkt og þann fyrri og náði að tvöfalda forystuna á 47. mínútu með marki frá Pontus Hindrikes. Lokatölur í leiknum urðu 2-0 fyrir Brage.

IK Brage fór upp í þriðja sæti deildarinnar með sigrinum. Bjarni og félagar eru aðeins fjórum stigum á eftir Íslendingaliðinu Mjällby sem er í 2. sæti með 25 stig, en efstu tvö sæt­in gefa sæti í sænsku úr­vals­deild­inni á meðan þriðja sætið gefur umspil um laust sæti.

Bjarni Mark, sem er 23 ára, hefur spilað tólf leiki fyrir Brage á leiktíðinni og lagt upp eitt mark.

Aron og Kristján Flóki léku í tapi

Þeir Aron Sigurðarson og Kristján Flóki Finnbogason léku báðir fyrir Start í norsku 1. deildinni í dag þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Kongsvinger, 4-2.

Aron spilaði allan leikinn á meðan Kristján Flóki kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik og lék síðasta korterið í leiknum.

Start er sem stendur í 5. sæti norsku 1. deildarinnar með 19 stig og sjö stigum á eftir Íslendingaliðinu Álasund, sem trónir á toppi deildarinnar.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun