Fylgstu með okkur:

Fréttir

Birkir sáttur hjá Aston Villa þrátt fyrir fá tækifæri

Birkir Bjarnason segist vera ánægður hjá Aston Villa þrátt fyrir fá tækifæri.

ÍV/Getty

Birkir Bjarnason segist sáttur við lífið hjá enska liðinu Aston Villa þó hann hafi spilað mjög lítið með liðinu síðasta misserið. Aston Villa tryggði sér fyrir skemmstu sæti í ensku úrvalsdeildinni á ný eftir að hafa verið síðustu þrjú ár í ensku B-deildinni.

Birkir, sem á eitt ár eftir af samningi sínum við Aston Villa, segist vera í góðu formi þrátt fyrir fáa leiki upp á síðkastið en hann er í landsliðshópi Íslands fyr­ir kom­andi verk­efni í undan­keppni EM á Laug­ar­dals­velli gegn Albaníu og Tyrklandi, 8. og 11. júní. Hann segir framtíð sína hjá Aston Villa óljósa en segist þó vera ánægður hjá félaginu þrátt fyrir fá tækifæri.

„Ég á eitt ár eft­ir af samn­ingn­um og svo sjá­um við bara til hvað ger­ist í sum­ar. Ég er alla vega mjög ánægður þarna, nema það nátt­úru­lega að hafa ekki spilað mikið síðan í janú­ar. Við verðum bara að sjá til hvað ger­ist, en ég hef ekk­ert rætt við klúbb­inn ennþá,“ sagði Birkir við Morgunblaðið í dag.

Birkir segir að það yrði ekki leiðinlegt að spila með Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð, ef sá möguleiki er fyrir hendi.

„Ég fór þangað því þetta er frá­bær klúbb­ur og það væri ekki leiðin­legt að spila í úr­vals­deild­inni. Ég væri mjög til í að vera þarna og spila. En við sjá­um til hvernig staðan verður eft­ir sum­arið,“ sagði Birk­ir við Morgunblaðið.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir