Fylgstu með okkur:

Fréttir

Birkir með góð til­boð frá Frakklandi og Bandaríkjunum

Birkir er með góð tilboð í höndunum frá Frakklandi og Bandaríkjunum.

ÍV/Getty

Ítalski fréttavefurinn TUTTOmercato birtir í dag frétt um að Birkir Bjarnason sé með góð tilboð í höndunum frá Frakklandi og Bandaríkjunum.

Birkir er að leita sér að nýju liði eftir að hafa runnið út á samningi hjá Al-Arabi í Katar fyrr í þessum mánuði. Birkir hefur sterklega verið orðaður við ítalska A-deildarliðið Genoa og er sagður eiga í viðræðum við liðið.

TUTTOmercato segist hins vegar hafa heimildir fyrir því að franska úrvalsdeildarliðið Toulouse og lið frá New York í banda­rísku at­vinnu­manna­deild­inni hafi áhuga á að fá Birki í sínar raðir og séu reiðubúin að greiða Birki hærri laun en Genoa.

Toulouse er sem stendur í neðsta sæti frönsku úrvalsdeildarinnar eftir 20 umferðir. Ekki kemur fram hvaða lið í New York er á höttunum eftir Birki, en tvö lið í borginni leika í banda­rísku at­vinnu­manna­deild­inni, liðin New York City FC og New York Red Bulls.

Birkir er sagður vera áhuga­sam­ur um að fara aftur til Ítalíu en umboðsmaður hans hefur unnið að því að útvega eins og hálfs árs samning hjá Genoa. Birkir lék áður með ítölsku liðunum Pescara og Sampdoria.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir