Fylgstu með okkur:

Fréttir

Axel Óskar úr leik út tíma­bilið

Axel Óskar verður frá út tímabilið vegna meiðslanna sem hann varð fyrir um síðustu helgi.

Mynd/Viking-fk.no

Íslenski varnarmaðurinn Axel Óskar Andrésson, sem leikur fyrir Viking í Noregi, verður ekki meira með á tímabilinu en hann meiddist á hné í leik Viking og Kristiansund um síðustu helgi.

Frá þessu er greint á heimasíðu Viking. 

Norska úrvalsdeildin var að fara aftur af stað og Axel var að spila sinn fyrsta leik í deildinni. Viking sigraði leikinn 2-0 en Axel entist í aðeins 17. mínútur áður en hann fór sárþjáður af velli eftir að hafa lent í samstuði við markvörð Kristiansund.

Fyrst var haldið að Axel myndi vera frá keppni í að minnsta kosti fjórar til sex vikur vegna meiðslanna en meiðslin reyndust alvarlegri en haldið var í fyrstu.

Axel gekkst undir rannsóknir sérfræðinga eftir meiðslin og þar kom í ljós að um væri að ræða liðbandameiðsli. Það er búist við því að hann þurfi að fara í aðgerð vegna meiðslanna.

Axel skrifaði undir þriggja ára samning við Viking í síðastliðnum desembermánuði eftir að hafa verið á láni hjá félaginu á síðustu leiktíð frá Reading. Viking komst á síðustu leiktíð upp úr B-deildinni í Noregi og er því nýliði í úrvalsdeildinni á þessu ári. Samúel Kári Friðjónsson er einnig á mála hjá félaginu.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir